Raular eitthvað úr Vesalingunum / STJÁNI GÍSLA

Tón-lystar-maðurinn að þessu sinni er Kristján Gíslason, árgerð 1969, uppalinn í Vestmannaeyjum og á Króknum. Kristján spilar á hljómborð en er þekktur raddbandatæknir og elstu menn muna vart eftir undankeppnum Júróvisjóns hér á landi öðru vísi en Kristján beiti þar rödd.

Helstu tónlistarafrek sín telur hann vera þátttöku í Hljómsveitakeppninni í Atlavík 1985 með Metan en einnig telur hann til 2. sæti í Músíktilraunum tvö ár í röð, með Metan og Herramönnum, og að sjálfsögðu þátttöku fyrir Íslands hönd í Eurovision 2001 þar sem hann söng Angel/Birtu.

Uppáhalds tónlistartímabil? Það er engin spurning að það er 80’s tímabilið svokallaða. Ég er enn að uppgötva hluti þaðan sem ég veitti ekki athygli á þeim tíma.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Jónas Sig og ritvélarnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Sérstaklega fyrri platan.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mjög blandað minnir mig. Þó man ég eftir Lonlí blú bojs, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Sailor og svo plötunni Forever and ever með Demis Roussos.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Mig minnir að ég hafi keypt Glass House með Billy Joel á kassettu. Fljótlega þar á eftir keypti ég svo plötuna Best Disco Album in the World.  Humble titill.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég átti forláta Hitatchi segulbandstæki og svo hafði ég aðgang að Philips græjum í stofunni.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Þessa dagana raula ég helst eitt-hvað úr Vesalingunum. Bring Him Home er oft á vörunum.

Bítlarnir eða Bob Dylan? Bítlarnir. Bob Dylan góður en einhvernveginn ekki á minni línu.

Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)? Uppáhalds erlenda júrólagið er líklega In my dreams með WigWam og úr innlendu deildinni myndi ég líklega velja Ég lifi í draumi.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? I Don’t Feel Like Dancing með Scissor Sisters.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þessa dagana myndi það líklega vera platan Talk Of The Town með Hanne Sørvaag. Fékk sent eitt lag frá henni um daginn og féll svolítið fyrir henni. Mjög þægileg sunnudagstónlist.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Úff! Nú koma nokkrir listamenn til greina en efst á óskalistanum er t.d. Pink, Maroon 5, Rolling Stones og margir fleiri sem of langt mál yrði að telja upp. Eftir að ég sá Funhouse tónleika Pink á DVD þá hefur hún verið mjög ofarlega á listanum. Frábær performer.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Algörlega ómögulegt að svara þessu. Fer svo mikið eftir því í hvaða skapi ég er. Mér finnst Brothers in Arms með Dire Straits alveg rosalega góð. En það eru fjölmargar aðrar plötur á þeim lista mínum. The Nightfly með Donald Fagen er klárlega þar á meðal. Hann á líka eitt flottasta lag sem ég hef heyrt. Það heitir Morph the Cat. Mæli með að þið hlustið á það í góðum græjum.

Vinsælustu lögin á PlaylistaKristjáns:
Morp the Cat  /  Donald Fagen
Stop Loving You  /  Toto
Street of Dreams Rainbow  /  Can’t Let You Go Rainbow
Shake It Good  /  Jagúar
Higher Ground  /  Stevie Wonder
Last Train To London  /  Electric Light Orchestra

„Þessi listi er þó gríðarlega breytilegur milli daga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir