Söng Singin' In the Rain í tíma og ótíma / ÚLLI HAR

Úlfar Ingi Haraldsson, eða Úlli Har eins og hann var kallaður þegar hann bjó á Smáragrundinni á Króknum, er af árgangi 1966. Hann er fæddur á Sauðárkróki en ólst að hluta til upp í Skagafirði og Reykjavík. Foreldrar hans eru Hallfríður Hanna Ágústsdóttir (frá Kálfárdal) og Haraldur Tyrfingsson. Bassinn náði snemma tökum á Úlfari og nú er hann sprenglærður á hljóðfærið. „Aðalhljóðfæri er kontrabassi og bassagítarar en ég spila líka töluvert á píanó og gítar,“ segir hann.

Spurður um helstu tónlistarafrek sín segir Úlfar: „[Ég hef} skrifað hátt í 70 tónverk sem hafa verið flutt m.a. af Sinfóníuhljómsveit íslands, Caput hópnum, fjölda kóra og af innlendum og erlendum listamönnum. Einnig leikið sem bassaleikari eða komið fram sem stjórnandi á fjölda tónleika á Íslandi og erlendis.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Sinfóníu nr. 2 eftir Johannes Brahms sem hljómaði í útvarpinu í beinni útsendingu frá Hörpu og leikin af Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Uppáhalds tónlistartímabil? 20.aldar nútímatónlist. Ég á erfitt með að vera nákvæmari þar sem ýmis verk standa uppúr á mismunandi tímum yfir öldina.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Öll skrifuð og alvarleg nútíma „klassísk“tónlist ásamt ýmiskonar djasstónlist

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ýmiskonar falleg dægurtónlist sem sungin var af t.d. Hauki Mortens, Björgvini Halldórssyni, Geirmundi Valtýssyni, ásamt BG og Ingibjörg og Roger Whittaker

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Keypti tvær plötur fyrir hluta af fermingarpeningum en það voru The Wall með Pink Floyd og In Through the Outdoor með Led Zeppelin.

Hvaða græjur varstu þá með? Þá voru bara gamlar græjur til á heimilinu sem ég man ekki einu sinni nafnið á. Þóttu ágætar græjur (frá ca. 1974) en nafnið ekkert tengt þeim græjutýpum sem hafa verið mest í umferð. 

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Lagið var Singing in the Rain sungið af Gene Kelly. Ég var mjög ungur (6-7 ára) þegar ég heyrði þetta lag first og varð alveg óskaplega hrifinn af laginu og söngnum. Átti það síðan til að syngja lagið með sjálfum mér í tíma og ótíma.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég hef ekki mikla þolinmæði fyrir rapptónlist og tónlist sem hjakkar sífellt í sama farinu eða of mikið í sama hrynmunstrinu eða „groove-inu“…of lengi!

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég væri ekki líklegur til að halda slíkt partý en ef það kæmi fyrir þá mundi ég líklega velja bara fjölbreytta góða dægurtónlist t.d. Allison Kraus eða Donald Fagen (Steely Dan) og síðan með smá shuffle rhythm and blues svona inná milli t.d. eitthvað með Peter Green (úr Fleetwood Mac) eða t.d. Hideaway með Eric Clapton and the Bluesbreakers. Svo má alls ekki gleyma Bob Marley sem ég hef alltaf haldið mikið uppá allt frá að ég heyrði tónlist hans first svona um 13 ára aldur.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Lútusvítur eftir J.S Bach, endurreisnarkórtónlist eða klassíska strengjatónlist frá síðbarokk eða klassískatímanum.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég hefði áhuga á að heyra Fílharmóníuhljómsveit Berlínar í sal þeirra í Berlín eða Vínarfílharmóníuna í Musikverein salnum í Vínarborg. Einnig áhuga á að heyra Ensemble Intercontemporain í Ircam hljóð og tónlistarrannsóknarstofnuninni í París. Færi helst einn því mér finnst best að njóta tónlistar einn en ef það er góður djass þá kannski einhver með sama æðið fyrir góðum djass J

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Aðallega eitthvað gott í útvarpinu þar sem ekkert kassettutæki var í bílnum. Ef það hefði verið eitthvað tæki til að spila af þá hefði músíkin verið einhver góður djass t.d. Niels Henning Ørsted Pedersen sá frábæri bassasnillingur.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera (eða haft mest áhrif á þig)? Ekki dreymt um að vera annar en ég er, en hvað áhrif snertir þá eru það persónur einsog tónskáldin Béla Bartók, Pierre Boulez, Duke Ellington og bassasnillingar einsog t.d. Niels Henning Ørsted Pedersen og Jaco Pastorius.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? Goldberg tilbrigðin leikin af Andreas Schiff – alveg ótrúlegur snilldarflutningur á þessu stórkostlega verki.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Á þessum tímapunkti eru það:
L.v.Beethoven Strengjakvartett op. 133 „Grosse Fuge“  með Bartók kvartettinum
Jay Walkin með Niels Henning Ørsted Pedersen
Domenico Dragonetti Konsert í A dúr fyrir kontrabassa og hljómsveit leikinn af Thomas Lom og Stuttgart kammersveitinni.
Sónata nr.1 fyrir píanó eftir Michael Tippett leikin af Peter Donohoe
Gríma eftir Jón Nordal leikinn af Kammersveit Reykjavíkur
Píanóstykki op.11 eftir Arnold Schoenberg í flutningi Eddu Erlendsdóttur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir