Væri til í að vera Beyoncé í einn dag / INGA HEIÐA

Inga Heiða að plötusnúðast fyrir örfáum árum.
Inga Heiða að plötusnúðast fyrir örfáum árum.

Inga Heiða Halldórsdóttir (1975) er alin upp á Miklabæ í Óslandshlíðinni. Helstu tónlistarafrek sín segir hún hafa verið að þeyta skífum á skólaböllum á Hofsósi en hún spilar ekki á hljóðfæri. „Eldri systkini mín fóru í blokkflautunám með þeim afleiðingum að það var ekkert tónlistarnám í boði fyrir örverpið,“ segir Inga Heiða sem nú er búsett í Reykjavík.

Uppáhalds tónlistartímabil? 80´s því þá var ég að byrja að pæla í tónlist. Þessu tímabili fylgdi svo mikil gleði í tísku og tónlist, flottir danssmellir og kraftmiklar ballöður sungnar af karlmönnum með permanet.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Elska að uppgötva nýja tónlist og fylgjast með hvað er að gerast í bransanum. Finnst gaman hversu margir sjónvarpsþættir og kvikmyndir leggja mikla vinnu í að hafa viðeigandi tónlist. Ég er alæta á tónlist og pínu geðklofa hvað það varðar. Verð meyr við að hlusta á Draumalandið en skipti svo beint yfir í Immigrant Song til að hressa mig við.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Rás 1 í botni alla daga en svo sáu eldri systkinin um tónlistarlegt uppeldi mitt. Þau kynntu mig fyrir U2 og Bruce Springsteen sem ég hlusta enn mikið á. Þau urðu fyrir verulegum vonbrigðum þegar Five Star var uppáhaldshljómsveitin mín. Já og hvar eru þau í dag? (Sko, Five Star .. ég veit sem betur fer hvar systkini mín eru í dag)

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta plata Whitney Houston.

Hvaða græjur varstu þá með? Plötuspilara, man ekki hvaða tegund.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Á fullt í fangi með að einbeita mér að hárþvotti og því lítið svigrúm fyrir söng, enda er fátt meira pirrandi en sjampó í munni.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það þarf meira en eitt lag til að eyðileggja minn dag. Ég er samt orðin ansi leið á glöðum hundum og mömmum sem þurfa að djamma.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Nína en það er líklega eina lagið sem ég kann allan textann. Árið 1964 vann Ítalía en þá söng hin 16 ára Gigliola lagið Non ho l´etá, betur þekkt sem Heyr mína bæn í flutningi Ellýar Vilhjálms.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Black Keys eru hressandi. Svo þegar allir eru við það að drepast þá hendi ég Rabbabara Rúnu í græjurnar og þá lifnar partýið aftur við. Staðfest.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Bob Marley, Ásgeir Trausti, Jónas Sigurðsson, Mumford & Sons, Adele, Emiliana Torrini .. listinn er endalaus!

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mér finnst gaman að fara á tónlistarhátíðir og heyra í mörgum og mismunandi tónlistarmönnum. Er alltaf á leiðinni á Hróarskeldu en langar líka  mikið á Lollapalooza hátíðina í Chicago. Ég myndi bjóða Hildi vinkonu minni sem bjó í Chicago og sagði mér frá þessari hátíð.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Ég yrði ekkert rosalega pirruð að vakna upp sem Beyoncé amk í einn dag.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Get ekki valið eina en ég fæ aldrei leið á Back to Black með Amy Winehouse

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)
Open
– Rhye
Buzzcut Season – Lorde
Drive All Night – Glen Hansard og Eddie Vedder
Fare Thee Well – Marcus Mumford og Oscar Isaac
Sweet World – Nýdönsk & John Grant
Stay Alive – José González

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir