Ökumenn virða ekki lokanir - Ófærð á Öxnadalsheiði

Grétar hvetur alla til að virða vegalokanir enda er mikið í húfi, ekki bara fyrir þann sem ákveður að brjóta bannið. Mynd: Grétar Ásg.
Grétar hvetur alla til að virða vegalokanir enda er mikið í húfi, ekki bara fyrir þann sem ákveður að brjóta bannið. Mynd: Grétar Ásg.

Á Facebook má sjá færslu Grétars Ásgeirsonar, starfsmanns Vegagerðarinnar, sem er hugsi yfir þeim sem virða ekki lokanir vega þegar veður og færð bjóða ekki upp á annað. Hann segir að í gærmorgun klukkan 7:15 hafi hann verið kallaður út til að aðstoða við lokun Öxnadalsheiðar vegna brjálaðs veðurs einn daginn enn. Það hafi gengið vel en þegar mokstursbílar fóru af stað eftir hádegið voru bílar fastir sem töfðu opnun Öxnadalsheiðar.

Grétar segir á Facebooksíðu sinni: „Ég sletti restinni af grautnum og slátrinu í dallinn hjá hundinum sem er í pössun hjá okkur og rauk út um dyrnar. Vel gekk að loka heiðinni og var ákveðið að athuga með mokstur eftir hádegi þar sem veðrið átti að skána milli 15 og 16. Mokstursbíllinn fór af stað um tvöleytið til að hefja mokstur svo hægt yrði að opna veginn þegar veðrið gengi niður. Skömmu síðar fórum við tveir frá Vegagerðinni af stað.

Annar til að vera tilbúinn að opna lokunarhliðið í Öxnadal þegar búið væri að moka heiðina og hinn til aðstoðar mokstursbílnum þar sem fregnir höfðu borist af því að ökumaður hefði fest bíl Skagafjarðar megin EFTIR að veginum var lokað í morgun. Fleiri höfðu greinilega ekið fram hjá lokunarhliðum og þurfti mokstursbíllinn að smokra sér fram hjá bíl sem var fastur við Grjótá sem er á miðri heiðinni og lét mig vita af honum.

Það getur endað illa að virða ekki lokanir vega, sérstaklega þegar um fjallvegi er að ræða. Mynd: Grétar Ásg.

 Þegar ég kom þar að fimmtán mínútum seinna hafði annar ökumaður komið aðvífandi, eftir að hafa ekið fram hjá lokunarhliði, og keyrði hann aftan á bílinn sem fastur var í skaflinum. Þetta hvort tveggja tafði opnun Öxnadalsheiðarinnar í dag og er þetta því miður ekki einsdæmi. Að lokum er eitt sem mig langar til að minnast á. Myndavélar sýna ekki alltaf veðrið eins og það er.

Ef þú lendir í þeim aðstæðum að sjá ekki í næstu stiku prófaðu þá að horfa fram á veginn í gegn um myndavélina á símanum þínum og ég get fullvissað þig um að það eru miklar líkur á að þá sjáir þú stikuna. Förum varlega í umferðinni og virðum lokanir. Ég get staðhæft að starfsmenn Vegagerðarinnar gera sér ekki að leik að loka vegum.“

 Meðfylgjandi myndir Grétars eru af Öxnadalsheiðinni í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir