Framleiðendur á ferðinni

Tólf smáframleiðendur á Norðurlandi vestra og Vörusmiðja BioPol hafa tekið höndum saman um skemmtilegt verkefni en þeir hyggjast verða á ferðinni um svæðið í sumar á smábíl sínum og bjóða vörur sínar til sölu.

Vörusmiðja BioPol á Skagaströnd heldur utan um verkefnið sem er eitt af sérstökum átaksverkefnum vegna áhrifa Covid 19 sem styrkt er af Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri Vörusmiðjunnar, segir markmið verkefnisins vera að auka aðgengi neytenda á Norðurlandi vestra að vörum smáframleiðenda á svæðinu en viðkomustaðir bílsins verða frá Borðeyri í vestri til Ketiláss í Fljótum í austri.

Sem áður segir eru það tólf framleiðendur sem taka þátt í verkefninu og bjóða þeir upp á fjölbreytt úrval gæðavöru. Þar má meðal annars finna grænmeti, blóm og bætiefni, krem og kjöt, svo eitthvað sé nefnt. Framleiðendurnir tólf eru Breiðargerði, Gandur, Garðyrkjustöðin Laugarmýri, Grilllausnir Kambakoti,  Gróðurhúsið Starrastöðum, Hraun á Skaga, Kaldakinn II, Kjötvinnslan Birkihlíð, Pure Natura, Rúnalist, Skrúðvangur og Sölvanes.

Að sögn Þórhildar fer bíllinn tvær umferðir um svæðið í júlí og tvær í ágúst og hefst fyrsta ferðin á Hólum í Hjaltadal næsta mánudag. Ekki þarf að panta vörur fyrirfram, heldur er nóg að mæta á svæðið og gera kaup á staðnum. Þessa dagana er auglýsing um áætlun bílsins að berast inn um bréfalúguna hjá væntanlegum viðskiptavinum en einnig verður hægt að fylgjast með á Facebooksíðunni Vörusmiðja BioPol.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir