Tveir nýir togarar í flota Fisk Seafood

Vörður EA 748
Vörður EA 748

Fisk Seafood ehf. gekk í dag frá kaupum á tveimur skipum af Gjögri hf. á Grenivík. Um er að ræða skuttogarana Vörð EA-748 og Áskel EA-749.  Einnig keypti Fisk Seafood tæplega 660 tonn af aflaheimildum Gjögurs. Aflaheimildir Fisk Seafood verða eftir kaupin tæplega 23 þúsund tonn eða um 6% af úthlutuðum aflaheimildum fiskveiðiársins 2018/2019.

Skipin verða afhent í lok júlí á næsta ári og um sama leyti fær Gjögur tvö ný skip til afhendingar. Verðmæti viðskiptanna miðað við núverandi gengisskráningu eru tæplega  1,7 milljarðar króna.

Áskell EA-749

Vörður var smíðaður árið 2007 hjá Nordship í Póllandi. Skipið er tæplega 29 metra langt, ríflega 10 metrar á breidd, 285 rúmlestir og 485 brúttó tonn að þyngd. Áskell er stálskip sem smíðað var hjá skipasmíðastöðinni Ching Fu í Taiwan árið 2009. Skipið er tæplega 29 metra langt, rúmlega 9 metra breitt og 362 brúttó tonn að þyngd. Skipin voru seld án kvóta en í sérstökum viðskiptum með aflaheimildir  keypti Fisk Seafood af Gjögri tæplega 350 tonna kvóta í ufsa og 245 tonn í djúpkarfa auk smærri heimilda í löngu, blálöngu, keilu, skötusel og þykkvalúru.

Skipakaupin eru liður í endurnýjun og endurskipulagningu á flota Fisk Seafood. Með nýjum skipum í stað hinna eldri eykst öryggi um borð og aðbúnaður batnar til muna. Endurnýjun er einnig ætlað að efla hagkvæmni í rekstri, fjölga heppilegum fiskimiðum með tilheyrandi fjölbreytni veiðanna, bæta meðferð aflans og auka um leið verðmæti hans.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir