Bestu knapar landsins mæta með bestu hesta landsins - Íslandsmótið í hestaíþróttum á Hólum í Hjaltadal

Sigurður Heiðar Birgisson, framkvæmdastjóra Íslandsmótsins í hestaíþróttum. Aðsend mynd.
Sigurður Heiðar Birgisson, framkvæmdastjóra Íslandsmótsins í hestaíþróttum. Aðsend mynd.

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum verður haldið á Hólum í Hjaltadal dagana 30. júní - 4. júlí nk. Mótið í ár verður með breyttu sniði frá því sem áður hefur verið en einungis 30 efstu knapar og hestar á landinu fá þátttökurétt í hverri grein. Feykir hafði samband við Sigurð Heiðar Birgisson, framkvæmdastjóra mótsins, og forvitnaðist örlítið um það.

„Nú hafa vissulega orðið breytingar á því hvernig Íslandsmóti er háttað. Einungis 30 efstu hestar í fullorðinsflokki og 20 efstu hestar í ungmennaflokki komast inn á mót svo þá má búast við gríðarlega sterkum hestum á mótinu. Það verður gaman að sjá hvernig Íslandsmót fer fram í þessum búning. Þetta verður klárlega eitt sterkasta hestamannamótið sem haldið verður í sumar,“ segir Sigurður. Mótshaldarar eru hestamannafélögin á Norðurlandi.

Sigurður segir undirbúning hafa staðið yfir frá því í vetur og gengið vel. „Það er að mörgu að huga þegar kemur að Íslandsmóti og er verið að leggja lokahönd á undirbúning. Helstu framkvæmdirnar sem við höfum farið í er með hringvöllinn á Hólum en hann var heflaður niður og nýtt efni sett í hann svo völlurinn verður í toppstandi þegar kemur að mótinu.“

Sú nýbreytni hefur orðið í kringum Íslandsmótið að knapar komast inn á það eftir stöðulistum í hverri grein. Þeir sækja sér einkunnir á mótum sem haldin hafa verið nú í sumar en einnig gilda einkunnir frá því í fyrra. Sigurður segir því allt stefna í það að gríðarlega öflugir hestar og knapar munu etja kappi á Hólum í sumar.

Hólar hafa hýst mörg mót, stór og smá og virðist standast allar væntingar hvað mótahald stórviðburða varðar. Sigurður er sammála því mati. „Hérna er frábær aðstaða til mótahalds. Við höfum rúmgóð hesthús, getum tekið á móti 250 hestum á svæðinu. Einnig eru hér reiðhallir sem knapar geta nýtt sér til undirbúnings ásamt góðum reiðvegum. Vellir og umgjörð í kringum þá er góð svo að hér er allt til alls fyrir mót af þessu tagi. Það er alltaf eitthvað sem maður tekur með sér og getur lært af og gert betur næst. Ef það er eitthvað sem við náum ekki að sinna eins og við hefðum viljað eru það gistimöguleikar á Hólastað,“ segir Sigurður en fáar íbúðir eru til leigu fyrir fólk sem kýs þann kostinn. Aftur á móti, segir Sigurður, er nægt tjaldstæðapláss, bæði almenn tjaldstæði sem og tjaldstæði með rafmagni. Fyrir áhugasama má nálgast pöntun á rafmagnsstæðum inn á skagfirdingur.is

Nú hefur Covid haft áhrif á keppnishald undanfarin misseri og Landsmóti m.a. frestað á seinasta ári sem og HM í ár. Geriði ráð fyrir mikilli þátttöku á Íslandsmót vegna þess eða teljið þið að hestamenn sniðgangi mótið og hvað með áhorfendur?

„Vegna þessara stöðulista sem farið er eftir þegar skráning fer fram verður þetta 320 skráningar í það heila. Við gerum fastlega ráð fyrir því að mótið verði vel sótt af knöpum sem eiga þáttökurétt. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu margir áhorfendur munu verða miðað við þetta ástand sem hefur verið undanfarið ár. Það hefur vissulega áhrif á erlendu gesti okkar en eru ekki allir Íslendingar orðnir ferða þyrstir? Það er því upplagt að skella sér í útilegu á hestamót í sumar, það gerist varla betra.“

Við hverju má búast hjá keppendum er Sigurður ekki í vafa þar sem hann á von á hörku keppni milli knapa á mótinun. Allir munu koma inn á mótið með það hugarfar að vinna sína grein svo Sigurður lofar spennandi móti. „Það verður einnig líf og fjör í dalnum þessa daga, það verður veitingasala á svæðinu, trúbador og kvöldvaka. Við mótshaldarar hvetjum að sjálfsögðu alla hestaunnendur til að drífa sig á Hóla í Hjaltadal og njóta góðra hesta með okkur, hér er gullið tækifæri til að sjá alla helstu gæðinga landsins í hverjum flokki spreyta sig ásamt okkar fremstu knöpum.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir