Bjarni Jónasson og Randalín fóru mikinn í gær

Bjarni Jónasson og Randalín. Mynd: Hafrún Eiríksdóttir.
Bjarni Jónasson og Randalín. Mynd: Hafrún Eiríksdóttir.

Töltkeppni KS-deildarinnar fór fram í gærkvöldi þar sem margar góðar sýningar fóru fram og ný hross vöktu athygli. Í forkeppni hlutu sex hross einkunnina sjö eða hærra. Efstur inn í úrslit var Bjarni Jónasson með Randalín með einkunnina 7,77 en efst inn í b-úrslit kom Fríða Hansen með hryssuna Kviku frá Leirubakka. Kvika var mjög flott á hægu tölti, fasmikil og viljug og reiðmennska Fríðu til fyrirmyndar.

Á fésbókarsíðu deildarinnar segir að Jóhanna Margrét og hestur hennar Kári frá Ásbrú hafi komið önnur inní b-úrslit með einkunnina 6,77. Þar segir einnig:

Kári er fasmikill og flott uppsettur hestur, virkar aðeins ör en sanngjörn reiðmennska Jóhönnu gerir hestinn afar athyglisverðan. 
Næst var Helga Una með hryssuna Þoku frá Hamarsey. Þessi unga hryssa er bráðefnilegt keppnishross, mikill fótaburður og reiðmennska Helgu bregst ekki, hlutu þær 6,73 í úrslitum.

Ísólfur Líndal og Ósvör frá Lækjamóti hlutu einkunnina 6,63. Ósvör er ung hryssa og lítt reynd í keppni en afar efnileg.

Síðastur en ekki sístur inn í b-úrslit var Guðmundur Karl og hryssa úr hans ræktun, Brá frá Akureyri. Brá er einnig að stíga sín fyrstu skref á keppnisvellinum og óhætt er að segja að hún hafi vakið mikla athygli í gærkvöldi. Fas og fótaburður einkenna þessa eftirtektaverðu hryssu.

B-úrslitin voru nokkuð eftir bókinni þar sem vilji og kraftur Kviku undir góðri stjórn Fríðu skiluðu sjötta sætinu með einkunnina 7,28.

Jóhanna með sinn vel uppsetta hest sem hélt hollingu í gegnum allt prógrammið hlutu einkunnina 7,0.

Guðmundur Karl með sitt frábæra efni Brá frá Akureyri fóru í 8. sætið með einkunnnina 6,83.

Helga Una og Þoka enduðu í níunda sæti, bráðefnileg hryssa sem með meiri styrk gæti náð langt.

Tíundu urðu Ísólfur Lindal og Ósvör frá Lækjamóti. Ósvör var mun öruggari í úrslitunum en í forkeppni. Mjúk og flott hryssa.

Efst inn í a-úrslit komu Bjarni Jónasson og Randalín frá Efri-Rauðalæk með einkunnina 7,77. Eins og við var að búast var sýning þeirra heilsteypt og sannfærandi.

Sigurður Rúnar og Reynir frá Flugumýri áttu mjög góða sýningu og komu þeir inn með einkunnina 7,30. Reynir er glæsigripur, stórstígur með nokkuð sérstakt fótatak. Sýning Sigurðar í forkeppni var mjög vel útfærð.

Mette Mannseth og Trymbill frá Stóra-Ási komu næst inn með einkunnina 7,27. Þessi mikli gæðingur sannar enn á ný sitt frábæra ganglag. Mýktin í Trymbli er fágæt og spurning hvort mætti ekki verðlauna hann meira fyrir það. Reiðmennska Mettu til fyrirmyndar eins og alltaf.

Fjórðu inn í úrslit með einkunnina 7.23 komu Þórarinn og Laukur frá Varmalæk. Eðlisgott tölt og einbeittur knapi skiluðu jafnri og góðri sýningu.

Gústaf Ásgeir og Draupnir frá Brautarholti komu fimmtu inn með einkunnina 7,07. Draupnir hefur afar gott tölt, gangtegundin alltaf góð á öllum hraða.

Eftir hægatöltið í úrslitum voru þrír knapar jafnir, Bjarni, Sigurður og Mette, svo ljóst var að það stefndi í spennandi keppni.

Hraðabreytingarnar voru Sigurði og Reyni erfiðar en Bjarni og Mette héldu sínu striki og ljóst var að keppnin um efsta sætið yrði á milli þeirra.

Randalín fór mikinn á greiðatöltinu og virkaði mjög örugg.

Trymbill var einnig mjög sannfærandi og eftirtektarvert hvernig hesturinn heldur sínu flotta formi þótt riðið sé hratt.

Hinn stórstígi Reynir fór höllina í fáum skrefum.

Tóti og Laukur voru mjög öryggir á yfirferð sem og hinn eðlismjúki Draupnir hjá Gústa.

Hrímnir sigraði liðakeppnina og hafa þau þar með unnið öll kvöldin.

 

Stórskemmtilegt kvöld í KS-Deildinni að baki.

Myndir Hafrúnar Eiríksdóttur er hægt að nálgast HÉR

 

1. Bjarni Jónasson - Randalín frá Efri-Rauðalæk - 8,17

2. Mette Mannseth - Trymbill frá Stóra-Ási - 8,0

3. Þórarinn Eymundsson - Laukur frá Varmalæk - 7,61

4. Sigurður Rúnar Pálsson - Reynir frá Flugumýri - 7,33

 

5. Gústaf Ásgeir Hinriksson - Draupnir frá Brautarholti - 7,22

6. Fríða Hansen - Kvika frá Leirubakka - 7,28

7.Jóhanna Margrét Snorradóttir - Kári frá Ásbrú - 7,0

8. Guðmundur Karl Tryggvason - Brá frá Akureyri - 6,83

 

9. Helga Una Björnsdóttir - Þoka frá Hamarsey - 6,78

10. Ísólfur Líndal - Ósvör frá Lækjamóti - 6,67

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir