Blóðtaka úr hryssum mikilvægur þáttur í landbúnaði Húnabyggðar

Byggðaráð Húnabyggðar telur að blóðtaka úr fylfullum hryssum sé mikilvægur þáttur í landbúnaði í sveitarfélaginu og hafi um árabil verið mikilvæg stoð í atvinnulífi í dreifbýli þess. Ráðið telur eðlilegt að skerpt sé á umgjörð um blóðtöku og að unnið sé markvisst að því að tryggja velferð og heilbrigði þess búfénaðar sem um ræðir.

Þetta kemur fram í bókun sem byggðaráð Húnabyggðar samþykkti á fundi sínum 30. júní síðastliðinn. Bókunin verður send inn í Samráðsgátt stjórnvalda sem athugasemd við reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Í bókuninni segir að í reglugerðardrögunum séu atriði sem setji núverandi starfsemi bænda skorður, sem ekki séu nægjanlega rökstuddar. Vísað er sérstaklega til liðar 8e en þar segir að taka megi aldrei meira en fimm lítra af blóði vikulega úr hryssu og að hámarki í sex vikur ár hvert en hingað til hafi mátt draga blóð úr hryssum í allt að átta skipti (vikur). Byggðarráð bendir á að í skýrslu þeirri sem liggi til grundvallar reglugerðardrögunum komi ekki fram nein vísindalega rök fyrir boðaðri breytingu.

„Breyting þessi veldur hins vegar verulegri tekjuskerðingu hjá þeim bændum sem greinina stunda. Eðlilegt væri að frekari rannsóknir væru unnar á áhrifum blóðtöku á gripina áður en verulegar breytingar eru gerðar á því verklagi sem viðgengist hefur í áratugi,“ segir í bókun byggðarráðs. Einnig telur ráðið að of skammur tími sé gefinn frá áformaðri gildistöku reglugerðarinnar og þar til blóðtaka hjá bændum geti hafist.

/huni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir