Elvar Einarsson nýr formaður Skagfirðings

Ný stjórn Hestamannafélagsins Skagfirðings: Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Rósa María Vésteinsdóttir, Geir Eyjólfsson, Pétur Örn Sveinsson, Elvar Einarsson, Bjarni Jónasson og Sara Gísladóttir. Mynd: PF.
Ný stjórn Hestamannafélagsins Skagfirðings: Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Rósa María Vésteinsdóttir, Geir Eyjólfsson, Pétur Örn Sveinsson, Elvar Einarsson, Bjarni Jónasson og Sara Gísladóttir. Mynd: PF.

Formannsskipti urðu í Hestamannafélaginu Skagfirðingi á aðalfundi þess sem haldinn var í Tjarnabæ í síðustu viku. Skapti Steinbjörnsson, á Hafsteinsstöðum, sem gegnt hefur embættinu sl. fjögur ár, ákvað að bjóða ekki fram krafta sína á ný og því var nýr formaður kosinn. Sá eini sem bauð sig fram, Elvar Einarsson á Skörðugili, fékk afgerandi kosningu eða öll atkvæði utan eins sem merkt var Stefáni Loga Haraldssyni, sem þó hafði ekki óskað eftir þeim frama í félaginu.

Ása Hreggviðsdóttir, sem haldið hefur utan um fjárreiður félagsins, vék einnig úr stjórn og þurfti því að kjósa tvo aðila, þar sem Elvar hafði einnig verið í fráfarandi stjórn. Í þeirra stað komu þau Unnur Rún Sigurpálsdóttir og Geir Eyjólfsson auk tveggja nýrra varamanna inn í stjórnina, Bjarna Jónassonar og Söru Gísladóttur. Áfram sitja þau Pétur Örn Sveinsson og Rósa María Vésteinsdóttir í aðalstjórn.

Í yfirreið formanns, um starfsemi félagsins síðasta starfsár, kom berlega í ljós hversu öflugt félag Skagfirðingar eiga en hvorki fleiri né færri en 18 starfandi nefndir eru innan félagsins, utan aðalstjórnar, sem heldur utan um starfsemi þess í hinum margvíslegu málum.

Þá var ekki síður fróðlegt og jafnvel spennandi, eins og gjaldkerinn orðaði það, að fara yfir reikninga félagsins en niðurstöðutölur sýndu að félagið var rekið með tæplega níu hundruð þúsund króna hagnaði síðasta starfsár.

Stefán Logi Haraldsson, sem situr í stjórn LH, flutti fundarmönnum kveðju frá formanni LH, Lárusi Ástmari Hannessyni, til félagsmanna Skagfirðings en Skagfirðingur mun halda landsþing LH í Miðgarði næsta haust og fara þar einnig fram formannsskipti þar sem Lárus hefur gefið það út að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formannssetu.  

Uppfært: Í upphaflegri frétt stóð að Skapti Steinbjörnsson hefði verið formaður félagsins síðustu þrjú ár en rétt er að árin voru fjögur. Beðist er velvirðingar á þessari rangfærslu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir