Equinics er fjórða liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS

Enn magnast spennan fyrir Meistaradeild KS í hestaíþróttum 2021 en fjórða liðið sem kynnt er til leiks er lið Equinics. Liðstjóri þess er hin kynngimagnaða keppniskona Artemisia Bertus á Nautabúi í Hjaltadal. Hún hefur náð góðum árangri á keppnisvellinum í gegnum tíðina, er útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og stundar tamningar og þjálfun á búi sínu.

Equinics liðið endaði í 5. sæti KS deildarinnar í fyrra og verður gaman að fylgjast með gengi þess í ár þar sem það er skipað nýjum knöpum frá síðustu keppni en með Artemisia nú eru nemendur við Háskólann á Hólum. Fyrsta skal telja upp Valdísi Björk Guðmundsdóttur, nemanda á þriðja ári, Veru Schneiderchen nema á öðru ári, Sunnu Sigríði Guðmundsdóttur nemanda á fyrsta ári og að endingu Daníel Gunnarsson, þjálfara á Miðsitju og nemanda á fyrsta ári.

Keppni hefst á fjórgangi í næstu viku, miðvikudaginn 3. mars í reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki, þar sem allar keppnir fara fram utan gæðingafimi sem fram fer í Léttishöllinni á Akureyri 19. mars. Slaktaumatöltið fer fram 9. apríl, fimmgangur 21. apríl og loks verður svo keppt í tölti og skeiði þann 7. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir