Evrópumeistaramótin verða að heimsmeistaramótum :: Kristinn Hugason skrifar

Íslenska fánaborgin á heimsleikum, mynd úr sýningu SÍH: Íslenski hesturinn á fullveldisöld. Ljm. Sigurg.Sigurjs.
Íslenska fánaborgin á heimsleikum, mynd úr sýningu SÍH: Íslenski hesturinn á fullveldisöld. Ljm. Sigurg.Sigurjs.

Í síðustu grein var fjallað um fyrsta Íslandsmótið í hestaíþróttum sem fram fór á Selfossi 1978 en er þar var komið sögu hafði verið stofnuð íþróttadeild innan Fáks árið 1976 og Íþróttaráð LH sett á laggirnar ári síðar, 1977, en það stóð að mótinu ásamt hestamannafélaginu Sleipni. Íþróttadeild Fáks fékk inngöngu ÍBR árið 1984 og Íþróttaráð LH fékk stöðu sérsambands innan ÍSÍ árið 1987.

Sama ár er svo í fyrsta sinn, eftir því sem best verður séð, farið að nota heitið Heimsmeistaramót íslenska hestsins í stað Evrópumeistaramóts, stundum er og talað um Heimsleika á íslenskum hestum. Það er svo ýmist notaður stór eða lítill stafur í heiti mótsins, helgast eflaust hvoru tveggja af smekk og í hvaða samhengi orðið er ritað. Hygg þó að samkvæmt gildandi reglum um réttritun sé réttara að nota lítinn staf. Breytt nafngift helgaðist af því að lönd utan Evrópu voru gengin í FEIF og meðal þátttakenda.

Heimsleikarnir 1987 fóru fram í Weistrach í Austurríki. Mótið þótti hið glæsilegasta og umhverfið ægifagurt, útkoma Íslendinga var góð og ber þar hæst að tölthornið vannst nú í fyrsta sinn í langan tíma. Tölthornið eftirsótta var á sínum tíma gefið af Búnaðarfélagi Íslands og vann Reynir Aðalsteinsson það á fyrsta Evrópumótinu á hestinum Stjarna frá Svignaskarði, eins og fram hefur komið, Reynir vann það svo aftur árið 1975 á Degi frá Núpum en allt til þessa var það samfellt í höndum Þjóðverja þar til Sigurbjörn Bárðarson vann það er hér er komið sögu á Brjáni frá Hólum. Svo segir af atburðinum í Eiðfaxa 9. tbl. 1987, bls. 17: „Þegar úrslitin voru tilkynnt ætlaði allt vitlaust að verða á meðal íslensku áhorfendanna og annarra Norðurlandabúa. Hafa sjaldan eða aldrei orðið eins mikil fagnaðarlæti á EM. – Tölthornið var komið heim eftir 12 ára útlegð í Þýskalandi.“

Kynbótahross á heimsleikum
Kynbótahross komu í fyrsta sinn fram á EM árið 1983 en þá eingöngu til kynningar þau voru svo fyrst dæmd árið 1985 og hafa verið á dagskrá EM/HM allar götur síðan. Deildar meiningar voru þó löngum hvað þátttöku okkar Íslendinga varðaði og hvort kynbótahross ættu í raun heima á mótunum, samanber eftirfarandi tilvitnun á bls. 32 í sama tölublaði Eiðfaxa og hér fyrr en greinin ber yfirskriftina Kynbótahross á EM/HM: „Það er hiklaust skoðun undirritaðra [S.S. og H.J.S. sem eru Sigurður Sigmundsson og Hjalti Jón Sveinsson, þáverandi ritstjórnarfulltrúi og ritstjóri blaðsins] að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í þessari sýningu á Evrópumótum. Við megum í raun ekki vera þekktir fyrir annað en að sýna það besta sem við eigum. Á hinn bóginn gefur það auga leið að við sendum ekki okkar bestu kynbótahross á erlenda grund. Þess vegna getum við aldrei setið við sama borð og keppnautar okkar á þessum mótum. ...

Það er svo líka spurning, hvort þessar kynbótasýningar eigi yfir höfuð erindi á þessi mót. Dagskráin er þegar orðin mjög viðamikil og tímafrek og mun enn aukast með þátttöku fleiri þjóða í framtíðinni. Auk þess megum við ekki gleyma því, að þessi Evrópumót eru haldin í þeim tilgangi eingöngu, að keppt sé í hinum ýmsu greinum hestaíþrótta.“

Hér er um að ræða atriði sem verð eru allrar athygli og gaman að íhuga í ljósi sögunnar. En eins og alkunna er búa Íslendingar einir FEIF-þjóðanna við þær aðstæður að landið er hrossum lokað til heimferðar. Það skapar þær aðstæður að séu hrossin í keppnissveitinni hverju sinni einvörðungu frá Íslandi komin þarf augljóslega að hesta hana upp í hvert skipti alfarið með nýjum hrossum. Hestamennska og hrossarækt eru hins vegar ákaflega þróttmikil hér á landi og bætir raunar stöðugt í, hefur því alls ekki reynst torvelt að standast þessa kröfu með þeirri ívilnun sem upp var tekin, sjá hér á eftir, án þess að ganga á höfuðstól genabankans nema síður sé. Þátttaka og sala hvort sem er keppnis- eða kynbótahrossa hefur raunar hleypt auknum krafti í starfsemina alla, hvoru tveggja með því að salan hefur hleypt þrótti í viðkomandi aðila og aukið þar með árangur og svo hefur skapast rúm fyrir ný, hvort sem er keppnis- eða kynbótahross, við brotthvarf annarra.

Útkoman úr kynbótasýningum á mótinu sem blaðamennirnir voru að fjalla um var mjög viðunandi og hefur hún verið það löngum og stundum stórglæsileg, án þess að spilað væri út helstu trompum stofnsins, enda ræktendur almennt meðvitaðir um mikilvægi merarkosts síns svo lengi sem þeir ætla að vera með í ræktunarstarfinu á annað borð og svo hitt að hvergi í íslenska hestaheiminum fá stóðhestar, sem viðurkenningu og vinsældum ná, notkun á borð við þá er hér næst. Hinu má svo ekki heldur gleyma að fjöldi undaneldishrossa hefur farið úr landi í gegnum áratugina sem keppnishross en ekki til þátttöku í kynbótahluta mótanna. Í sambandi við stóðhestana er svo og rétt að hafa í huga að nú í seinni tíð er mun algengara að hesttrippi séu höfð ógelt m.v. hvað áður tíðkaðist. Þessu til viðbótar var svo sú ívilnun tekin upp þegar árið 1991 við val á hrossum til að mæta fyrir Íslands hönd, að íslenskfædd hross en staðsett erlendis gátu keppt um þátttöku í sveit Íslands í kynbótaþætti mótsins, sjá Hrossaræktin 1991, bls. 216-217. Sambærileg regla var síðar tekin upp hvað val á keppnishrossunum varðaði, þ.e. að landsliðseinvaldi var eftir sérstökum lykli heimilt að velja hross til þátttöku sem komin voru erlendis eða í íslenskri eigu.

Heimsleikarnir 1991 fóru fram í Nörrköping í Svíþjóð, almennt voru menn sammála um að útkoma íslensku keppendanna hafi verið vel viðunandi. Hvað kynbótaþáttinn varðar var Sigurður Sigmundsson, ritstjórnarfulltrúi Eiðfaxa, á mótinu og skrifaði um hann. Kvað hann upp úr með það að kynbótahrossin hefðu verið betri en áður og hvað þátttöku Íslands varðar sagði hann: „Það er skoðun undirritaðs að Íslendingar eigi hiklaust að taka þátt í kynbótasýningum á þessum mótum ef fyrirkomulag þeirra verður með svipuðu sniði áfram. Útilokað er að lenda utanveltu í þessum efnum..“. (Eiðfaxi 9. tbl. 1991, bls. 12-13).

Niðurlagsorð
Hvað það áhorfsatriði varðar hvort kynbótaþátturinn eigi heima á heimsleikum hefur hann fest í sessi ef eitthvað er og má þar segja að sú skoðun sem Gunnar Bjarnason hélt mjög uppi, að erlent fólk ætti að fá aðild að kynbótastarfinu hefði það áhuga á, hafi orðið ofan á en með því væri það fúsara að vinna að útbreiðslu kynsins. Því í hugum sumra er lykill hestamennskunnar sú sköpun sem fellst í þátttöku í ræktuninni sjálfri.

Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins

Áður birst í 9. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir