Félagsmót og úrtaka fyrir fjórðungsmót undirbúin

Nú eru hestamannafélögin á Norðurlandi vestra farin að undirbúa sín félagsmót sem einnig eru auglýst sem úrtaka fyrir Fjórðungsmót Vesturlands en það mót verður haldið 7.-11. júlí í sumar. Skagfirðingur ríður á vaðið og heldur sitt mót um næstu helgi.

Félagsmót Skagfirðings, sem jafnframt er úrtaka fyrir Fjórðungsmót Vesturlands, verður haldið 5. - 6. júní nk. á Sauðárkróki og fer skráning fram á sportfengur.com fram til fimmtudagsins 3. júní kl. 20.

Mótið hefst laugardagsmorgun kl. 9 og keppt verður í A flokki, B flokki, A- og B flokki áhugamanna, A- og B flokki ungmenna, unglingaflokki, barnaflokki og pollaflokki. Einnig verður keppt í gæðingatölti í áhugamannaflokki og opnum flokki.

Í A og B flokki áhugamanna er riðin sérstök forkeppni þar sem þrír eru inni á braut í einu en í öðrum flokkum verður venjuleg forkeppni, samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Skagfirðings.

Hestamannafélögin Þytur í Húnaþingi og  Neisti á Blönduósi verða saman með sitt úrtökumót fyrir Fjórðungsmót Vesturlands en Þytur mun einnig hafa mótið sem sitt gæðingamót. Fer það fram á Kirkjuhvammsvelli á Hvammstanga, dagana 12. og 13. júní nk.

Boðið verður upp á eftirfarandi flokka en vegna þess að um félagsmót Þyts er að ræða eru færri flokkar í boði fyrir félagsmenn Neista. Frekari upplýsingar er að finna á Neisti.net

  • A flokk gæðinga
  • B flokk gæðinga
  • C1 flokk gæðinga
  • Ungmenni (18-21 árs á keppnisárinu)
  • Unglingar (14-17 ára á keppnisárinu)
  • Börn (10-13 ára á keppnisárinu)
  • Skeið 100m
  • Pollar (9 ára og yngri á árinu)
  • Gæðingatölt í öllum flokkum.

Upplýsingar frá Hestamannafélaginu  Snarfara á Skagaströnd höfðu ekki borist við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir