Fjórðungsmót Vesturlands hefst í vikunni

Frá Fjórðungsmóti. Mynd: Eiðfaxi
Frá Fjórðungsmóti. Mynd: Eiðfaxi

Fjórðungsmót Vesturlands og Landssýning kynbótahrossa fer fram í Borgarnesi í vikunni sem er að byrja, 7.-11. júlí. Keppt verður í gæðingakeppni, opnum töltkeppnum og 100 metra flugskeiði. Þáttökurétt í gæðingakeppni eiga knapar og hesteigendur af Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.Einnig fer fram kynbótasýning á mótinu fyrir hesta af þessu svæði og síðan verður Landssýning Kynbótahrossa þar sem kynbótahross af öllu landinu verða verðlaunuð. Mótið hefst á miðvikudaginn á forkeppnum og síðan verða úrslitin riðin um helgina.

„Það eru hross af þessu svæði sem hafa þátttökurétt á mótinu og knapar úr hestamannafélögum á þessu svæði sem koma og keppa á þessu móti í A- og B-flokki og yngri flokkum. Einnig verður kynbótasýning á þessu fjórðungsmóti þar sem að hross af þessu svæði eru gjaldgeng á,“  sagði Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri mótsins, í samtali við Feyki.

Í opnu greinunum er til mikils að vinna því að peningaverðlaun verða veitt fyrir efsta sætið.
„Svo erum við með opna töltkeppni þar sem keppt er í T1 þar sem eru 100.000 kr. í boði fyrir fyrsta sætið í boði Fasteignasölunnar Trausta. Í T3 sem er opinn flokkur, þrír inni á í einu, er Alendis sjónvarpsstöðin með 80.000 kr. í sigurlaun fyrir þann sem vinnur það. Við erum líka með T3 fyrir börn og unglinga undir 17 ára, þar eru 50.000 kr. í boði frá Steypustöðinni og svo erum við með opið 100 metra flugskeið þar sem að Leiknir Hestakerrur veitir sigurvegaranum 50.000 kr. í sigurlaun.“


Landssýning kynbótahrossa fer einnig fram á mótinu en hún fæddist með það að markmiði að verðlauna kynbótahross þar sem að landsmót það ár féll niður.
„Á laugardeginum verður síðan landssýning kynbótahrossa. Sú sýning er nýbreytni sem sett var á í fyrra, í Covid, að halda landssýningu vegna þess að þá var ekkert landsmót, og þetta mæltist það vel fyrir og fólki fannst þetta form ofboðslega skemmtilegt, að það var ákveðið að halda þessa sýningu aftur núna, á oddatöluári, semsagt ekki á landsmótsári. Staðan 19. júní, þegar að allar kynbótasýningar vorsins voru búnar, við erum að verðlauna hana. Þar eru að fara mæta bestu kynbótahross þessa árs, sem af er þessu ári, af öllu landinu og þetta verður feikna, feikna sýning. Það er góð mæting og við erum að fara sjá ofsalega flott hross þar.

Á föstudagskvöldinu verður ræktunarbúsýning en þær hafa lengi verið stór partur af fjórðungsmóti og ómissandi.
„Það eru átta ræktunarbú skráð sem koma af þessu svæði, þau munu sýna sína ræktun, vera með sitt atriði og það verður valið á staðnum með dómnefnd og klappmæli í brekkunni, besta ræktunarbú fjórðungsmóts. Það bú mun síðan koma á laugardagskvöldinu fram á kvöldvöku, ásamt keppnishestabúi ársins sem kemur frá Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra og Þúfum í Skagafirði sem er ræktunarbú ársins. Þá mun þetta sigurbú fjórðungsmóts “joina“ þá og getur það bú borið sig saman við þau bestu og séð hvernig það stendur,“ sagði  Magnús. 

Skemmtun á fjórðungsmótinu
Á Fjórðungsmótinu verður einnig skemmtidagskrá á kvöldin enda er nauðsynlegt að hestamenn skemmti sér aðeins saman. Á föstudagskvöldinu mun Hreimur trúbba í reiðhöllinni og síðan mun DJ Siggi Hlö vera með hörkuball á Laugardagskvöldinu.
„Hreimur Heimisson verður með trúbadorastemningu í reiðhöllinni á föstudagskvöldinu og við erum svona að vona ef að veðurguðirnir verða hressir við okkur, sem mér sýnist á öllu, þá verður hann Hreimur með brekkusöng á kvöldvökunni. Á laugardeginum byrjar landssýningin og áætlað er að hún byrjir 10:30 og standi frameftir degi. Og þá eru svo B-úrslit í gæðingakeppnum og um kvöldið á kvöldvöku verður 100 metra flugskeið og A-úrslit í töltgreinum. Siggi Hlö verður síðan með ball í Reiðhöllinni, það er mikill spenningur fyrir því heyrir maður og það verður voðalega gaman hjá okkur það kvöld.

Veitingar á mótinu verða í höndum Gumma frá Laufási, rekstraraðila að veitingasölu í Perlunni, og mun hann sjá um alla veitingasölu á mótinu í reiðhöllinni.
„Við erum að vinna með þennan frasa að búa til mathöll úr reiðhöllinni, það er í tísku í dag. Gummi verður með það fjölbreytt í boði að hann verður aðalveitingaaðili mótsins.“

Aðgangseyrir inn á mótið er 9000 kr. og hægt er að kaupa miða á Tix.is og á svæðinu. Frítt er inn á mótið fyrir 13 ára og yngri. Tjaldsvæði mótsins verða inni í Borgarnesi á tjaldsvæðinu þar. Einnig mun Alendis TV sýna beint frá öllu mótinu. Hægt er að fylgjast með upplýsingum um mótið og nálgast dagskrá á fésbókarsíðu mótsins.

 "Ég hlakka til að sjá sem flesta, vonandi geta sem flestir lagt leið sína til okkar. Við hestamenn höfum varla getað komið saman síðan 2018 á landsmóti og nú er kominn tími til," sagði Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri mótsins að lokum. 

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir