Fjórir Skagfirðingar í U21-landsliðshópi LH

Mynd af lhhestar.is / Gunnar Freyr Gunnarsson
Mynd af lhhestar.is / Gunnar Freyr Gunnarsson

Landssamband hestamannafélaga (LH) kynnti U21 landsliðshóp LH í gær og er það annað skrefið sem LH tekur í breyttum áherslum í afreksmálum en nýlega var kynntur landsliðshópur LH í flokki fullorðinna. Fjögur skagfirsk ungmenni prýða sextán manna hópinn sem samanstendur af afreksknöpum í fremstu röð í hestaíþróttum hérlendis, 16-21 árs.

Í U21-landsliðshópi LH eru frá hestamannafélaginu Skagfirðingi systurnar á Skörðugili, Ásdís Ósk Elvarsdóttir 21 árs og Viktoría Eik Elvarsdóttir 19 ára, Þórdís Inga Pálsdóttir 20 ára á Flugumýri og Guðmar Freyr Magnússon 18 ára á Sauðárkróki og Íbishóli.

Síðustu þrjú ár hefur LH haldið úti afrekshópi ungmenna, 16-21 árs, sem hittist reglulega undir leiðsögn liðstjóra og valins reiðkennara. Á heimasíðu LH kemur fram að töluverðar breytingar veðri gerðar á því fyrirkomulagi í takt við nýjar áherslur LH í afreksmálum. Áherslurnar verða svipaðar og í nýskipuðum landsliðshóp LH og mun U21 hópurinn hafa aðgang að sama fagteymi og fræðslu.

Breytingarnar frá því að vera afrekshópur ungmenna yfir í að vera U21 landsliðshópur felast m.a. í því að landsliðsþjálfari U21 velur hópinn og hefur reiðfærni, hestakost og íþróttamannslega framkomu að leiðarljósi. Þau ungmenni sem eru valin í liðið þurfa að hafa góðan keppnisárangur, stefna á HM og hafa hest sem er í boði til að fara á HM.

Arnar Bjarki Sigurðarson sem var liðstjóri afrekshóps LH verður landsliðsþjálfari U21 landsliðshóps LH. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari LH hefur yfirumsjón með báðum hópum en mikið samstarf verður á milli landsliðsþjálfaranna.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir