Glanni besti töltarinn – Hestamaðurinn :: Ingimar Jónsson á Flugumýri

Góðir félagar á góðri stund. Frá v. Bjarni Páll Vilhjálmsson, Hinrik Már Jónsson, Ingimar Jónsson, Jón Pétur Ólafsson og Vignir Sigurðsson. Aðsend mynd.
Góðir félagar á góðri stund. Frá v. Bjarni Páll Vilhjálmsson, Hinrik Már Jónsson, Ingimar Jónsson, Jón Pétur Ólafsson og Vignir Sigurðsson. Aðsend mynd.

Ingimar Jónsson, bóndi á Flugumýri, er hestamaður vikunnar á Feyki. Hann er kvæntur Margréti Óladóttur og eiga þau miklu barnaláni að fagna en börn þeirra eru þau Dagur Már f. 1991, Katarína f. 1995, Rakel Eir f. 1999, Jón Hjálmar f. 2003, Matthildur f. 2008 og Árni Þór f. 2015. Foreldrar hans eru þau Jón Ingimarsson frá Flugumýri og Sigríður Valdimarsdóttir frá Sauðárkróki en af þeim tóku þau hjón við búskap á Flugumýri 1998-9. Aðspurður um hrossafjölda segir Ingimar hann vera aðeins meiri en nauðsynlegt getur talist.

Hver er fyrsta minningin tengd hestum? -Fyrsta minningin er nú í einhverri móðu en ég held samt að það sé að einhver fullorðinn batt strigapoka aftan við hnakkinn og svo var riðið niður að vötnum og vitjað um silunganet.

Hver er uppáhaldshesturinn þinn og af hverju? -Maður á alltaf einhvern uppáhaldshest hverju sinni og yfirleitt einhvern sem maður er að þjálfa í það skiptið. Núna er minn uppáhaldshestur ungur foli úr ræktun vinar míns Agnars á Miklabæ og við eigum hann saman. Hann heitir Lífeyrissjóður. Það segir nú allt um hann.

Hvað var það skemmtilegasta sem þú gerðir í sumar, tengt hestum? -Í sumar fór ég í ferð sem var ákveðin í fimmtugsafmælinu mínu með góðum vinum. Bjarni Páll vinur minn, sem rekur Saltvíkurhesta, skipulagði. Við lögðum upp frá Meiðavöllum við Ásbyrgi í Þeistareyki, þaðan á Mývatn, Grímsstaða á fjöllum, í Möðrudal og enduðum í Sænautaseli sem er efst á Jökuldal. Þetta voru mörg hundruð kílómetrar af Austurlandsauðn og frábærum reiðgötum. Og ekki skemmdi félagsskapurinn.

Áttu einhverja sögu tengda hesti sem fallinn er frá? -Einn besti hestur sem ég hef átt um dagana hét Glanni og var frá Guðnabakka í Borgarfirði. Ég var búinn að heyra af honum inni í hesthúsi hjá Sveini á Lýtingsstöðum, að þar væri sérlega fallegur og reistur foli sem vert væri að skoða. Ég fór og heilsaði upp á „kunningja“, sem svaraði að bragði sæll „félagi“, og falaðist eftir að prófa hestinn. Einhverjar vöflur voru nú á Sveini en fyrir rest fékk ég að prófa þegar búið var að ákveða verðið. Ég komst í fyrstu beygju og lá þar eftir í skurði. Þetta voru kannski 200 metrar. Það var nóg, hesturinn fór með heim og er enn í dag besti töltari sem ég hef riðið og hef þó prófað allavega tvo heimsmeistara í tölti. Hann náði ágætis árangri í keppni á sínum tíma en spattaðist og þar með lauk því.

Hvað ertu að gera þessa dagana, eða á næstunni, tengt hestum? -Í dag er ég með vetrarsetu á Akureyri, af ýmsum ástæðum sem ekki verða ræddar hér. Og hafði með mér fjögur hross til að líta til með og reyna að gera eitthvað úr. Ríð út með Eyfirðingum sem er auðvitað ekkert líkt og að ríða út með Skagfirðingum eins og þið skiljið sem lesið.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir