Guðmar Freyr efnilegastur og Þúfur keppnishestabú ársins

Eldur frá Íbishóli eftir sigur á Fjórðungsmóti. Mynd: Brynja Gná Bergmann.
Eldur frá Íbishóli eftir sigur á Fjórðungsmóti. Mynd: Brynja Gná Bergmann.

Fyrr í dag fór fram á Hotel Natura verðlaunahátíð Landssambands hestamannafélaga en þar áttu þrír Skagfirðingar möguleika á knapaverðlaunum og tvö skagfirsk bú fyrir keppnishestabú ársins 2021. Guðmar Freyr Magnússon var valinn efnilegasti knapi landsins 2021 og Þúfur hlaut nafnbótina keppnishestabú ársins.

Guðmar Freyr Magnússon hlaut þann heiður að vera valinn efnilegasti knapi ársins 2021 en sumarið honum heilladrjúgt þrátt fyrir skakkaföll sem næstum kom í veg fyrir að hann næði að keppa á helstu hestamótum landsins eins og fram kom í viðtali við hann í Feyki vikunnar.

Í frétt á Eiðfaxa.is má sjá tilkynningu frá LH þar sem segir að Guðmar Freyr hafi staðið sig afar vel á árinu. „Hann varð Íslandsmeistari ungmenna í tölti á Sigursteini frá Íbishóli og vann ungmennaflokk á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi á Eldi frá Íbishóli. Hann er efstur á stöðulista ársins í tölti ungmenna. Hann náði einnig góðum árangri í fimmgangi á Rosa frá Berglandi og er ofarlega á stöðulista ársins í þeirri grein. Guðmar Freyr kemur vel fyrir með kurteisina að vopni og hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér, hann er efnilegasti knapi ársins,“

„Þakklæti kemur efst í huga fyrir veittan stuðning frá pabba, mömmu og öllum hinum,“ sagði Guðmar við fyrirspurn Feykis um hvernig honum væri innanbrjósts eftir daginn.

Þá hlaut Þúfur viðurkenningu sem Keppnishestabú ársins en þar ráða þau Mette Mannseth og Gísli Gíslason ríkjum. „Að Þúfum í Skagafirði rækta þau Gísli Gíslason og Mette Mannseth afrekshross í fremstu röð og hafa gert um árabil. Hross frá þeim voru í úrslitum í öllum hringvallargreinum á Íslandsmótinu með knöpum sínum en það voru þau Skálmöld, Kalsi, Sólon, Blundur og List. Þá stóð Kalsi efstur í A-flokki gæðinga á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi auk þess að þau List og Blundur voru í A-úrslitum í B-flokki. Frábær árangur hjá búi þar sem að þegar þessi hross voru að koma í heiminn fæddust á bilinu 8-10 folöld á ári. Fleiri hross en þau sem áður hafa verið upp talinn standa að baki þessum frábæra árangri og má þar nefna þau Kaktus og Værð. Gísli og Mette temja, þjálfa og sýna langflest af sínum hrossum sjálf og eru fagmenn fram í fingurgóma,“ segir í umsögn LH.

Aðrir sem hlutu verðlaun voru Jakob Svavar Sigurðsson sem íþróttaknapi ársins, Daníel Jónsson gæðingaknapi ársins, , Konráð Valur Sveinsson skeiðknapi ársins en Árni Björn Pálsson fékk tvenn verðlaun annars vegar sem kynbótaknapi ársins og það sem allir sækjast eftir; knapi ársins 2021.

Sjá nánar á Eiðfaxi.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir