Guðmar Freyr Íslandsmeistari í Tölti ungmenna

Guðmar Freyr og Sigursteinn eftir úrslitin. Mynd: SMH
Guðmar Freyr og Sigursteinn eftir úrslitin. Mynd: SMH

Guðmar Freyr Magnússon varð Íslandsmeistari í Tölti T1 ungmenna á Íslandsmótinu í Hestaíþróttum sem fram fór á Hólum um helgina. Guðmar sat hestinn Sigurstein frá Íbishóli sem kemur úr ræktun föður hans, Magnúsar Braga á Íbishóli. Það sem gerir þennan sigur einstaklega sætan fyrir Guðmar er að fyrir mánuði síðan slasaðist hann þegar hann varð undir hesti og var því tvísýnt hvort hann gæti keppti á íslandsmótinu.

Blaðamaður Feykis hitti Guðmar þegar titilinn var í höfn og ræddi stuttlega við hann.
„Tilfinningin er nokkuð góð þetta er svona, já óneitanlega, sennilega, að öllum líkindum sætasti sigur sem ég hef upplifað.“

Það var tvísýnt hvort að Guðmar gæti keppt á Íslandsmótinu en fyrir mánuði síðan lenti hann í óhappi þegar að hann varð undir hesti.
„Ég lenti í smá óhappi fyrir mánuði síðan, eða 4. Júní, þá lendi ég í því óhappi að það prjónar yfir sig með mig hross og lenti ofan á mér. Ég er með sködduð krossbönd í vinstra hné og einhverskonar fótbrot og eitthvað svoleiðis.“

„Ég er nú nokkuð góður og er að taka miklum framförum, það er mikið bataferli í gangi en þetta á eftir að taka meiri tíma, mér er sagt að þetta muni verða 6-12 mánuðir að jafna sig. Ferlið er rétt að byrja, en mér finnst mikið hafa gerst og þetta bara vegar vel,“ segir Guðmar.

Guðmar sat hestinn Sigurstein frá Íbishóli og hlutu þeir einkunnina 7,77 í úrslitunum. Sigursteinn er 8. vetra úr ræktun föður hans, Magnúsar Braga á Íbishóli, undan Bylgju frá Dísarstöðum og Óskasteini frá Íbishóli.
„Þetta er einstaklega samvinnuþýður og ljúfur gæðingur, einkar góður á tölti, skemmtileg skref en umfram mikill vinur minn.“

Hvert er framhaldið hjá þér í sumar?

„Það er svona að reyna að halda eitthvað áfram að taka framfaraskref í þessum meiðslum, ég ætla að gera tilraun til þess að keppa í ungmennaflokki á fjórðungsmóti í næstu viku og svo verður framhaldið bara að skýrast með tímanum,“ segir Guðmar Freyr bjartsýnn að lokum.

 

 /SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir