Hestamenn komnir í keppnisgírinn

Mynd af Facebooksíðu Hestamannafélagsins Skagfirðings.
Mynd af Facebooksíðu Hestamannafélagsins Skagfirðings.

Loks er farið að birta til hjá hestamönnum í Skagafirði þar sem fyrsta keppni Vetramótaraðar Hestamannafélagsins Skagfirðings hefur verið boðað laugardaginn 5. febrúar nk. kl. 13 í Svaðastaðahöllinni. Skráningu lýkur í kvöld.

Líklega má gera ráð fyrir því að keppnishaldarar fagni rýmkuðum sóttvarnareglum heilbrigðisráðherra en frá og með deginum í dag er heimilt að hafa allt að 500 manns í hólfi á sitjandi sviðslistarviðburðum og í útförum, í kvikmyndahúsum og leikhúsum, að uppfylltum þeim skilyrðum að allir gestir séu sitjandi og ekki andspænis hver öðrum, að gestir noti andlitsgrímu og að ekki séu seldar áfengisveitingar fyrir viðburð, á meðan hann stendur yfir og eftir að honum lýkur. Þá skulu gestir halda kyrru fyrir í sætum sínum, ef hlé er gert á viðburði, sé þess kostur.

Á Fésbókarsíðu Hestamannafélagsins Skagfirðings segir að keppt verði í 1. flokki, 2. flokki, ungmennaflokki, unglingaflokki, barnaflokki og pollaflokki.

Keppt verður í B-flokki og þá keppt í sérstakri forkeppni í hægu tölti- brokki- yfirferðatölti í 1. og 2. flokki, og í flokkum ungmenna og unglinga. Í barnaflokki er það tölt eða brokk og stökk.

Skráningarfrestur í liðakeppnina er liðinn en í reglum um hana segir að liðin þurfi að hafa nafn og sérkenni þannig að þau þekkist. Hvert lið skal skipað að lágmarki þremur knöpum sem skuldbinda sig til að vera í sama liðinu allt tímabilið þar sem óheimilt verður að skipta um lið á miðju tímabili. Í upphafi tímabils verður svo hver og einn knapi að velja sér hvort hann ætli að keppa í 1. eða 2. flokk út mótaröðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir