Húnvetnska liðakeppnin hófst á þorrablóti

Húnvetnska liðakeppnin er hafin.
Húnvetnska liðakeppnin er hafin.

Á föstudagskvöldið voru fyrstu keppendurnir í Húnvetnsku liðakeppninni dregnir í lið og haldin keppni án hests. Það var fjólubláa liðið sem vann keppnina og fékk þar með tvö stig inn í mótaröðina.

Þá kynnti nefndin nýtt mót sem verður haldið í lok mótaraðarinnar á Sauðárkróki, mjög spennandi mót þar sem efstu fjórir í 2. flokki, 2 efstu í barna, unglinga og ungmennaflokki munu keppa á úrslitamóti deilda á Norðurlandi. Mót sem er í líkingu við meistari meistaranna sem haldið var í Sprettshöllinni sl. vor þar sem efstu knapar í öllum deildum á landinu kepptu á úrslitamóti. Mótið verður nánar kynnt þegar nær dregur samkvæmt frétt á vefsíðu Þyts.

Annað sem nefndin endurvekur er ,,Bæjarkeppnin" en fyrir nokkrum árum var svipuð útgáfa samhliða liðakeppninni. Bæjarkeppni er keppni þar sem ræktunarbú, hesthús, kvenfélög eða hvaða hópur sem er, býr til fjögurra manna lið, Hvert lið þarf að innihalda einn knapa í 1. flokki, 2. flokki, 3. flokki og annaðhvort barna eða unglingaflokki, ekki er gerð krafa að sömu knapar keppi fyrir sama liðið allan tímann. Hvert lið ákveður knapa fyrir hvert mót, en knapar mega ekki fara á milli liða.

Mótin í Húnvetnsku liðakeppninni í ár verða þrjú:

Fyrsta mót verður föstudaginn 17. febrúar - fjórgangur, næsta mót verður föstudaginn 3. mars og þá verður keppt í fimmgangi í 1. og 2. flokki, tölti T2, tölti T7 í barna, unglinga og 3. flokki. Lokamótið verður haldið laugardaginn 1. apríl og þá verður keppt í tölti T3 í öllum flokkum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir