Keppni í Meistaradeild KS í hestaíþróttum hefst í kvöld

Þá er komið að fyrsta keppnisdegi Meistaradeildar KS í hestaíþróttum sem fram fer í reiðhöllinni á Sauðárkróki en þá verður keppt í gæðingafimi. Fjörið hefst klukkan 18:30 á liðskynningu og hálftíma síðar mætir fyrsti keppandi í brautina, Guðmar Freyr Magnússon á Sátt frá Kúskerpi. Þeir sem ekki komast í höllina er bent á að hægt er að kaupa aðgang að beinni útsendingu VJ mynda á netinu. Í stjórn stjórn Meistaradeildar KS eru: Anton Páll Níelsson, Inga María S. Jónínudóttir, Unnur Rún Sigurpálsdóttir, Helga Rósa Pálsdóttir og Andrea Þorvaldsdóttir. Átta lið taka þátt í mótinu og hér fyrir neðan má sjá þau fimm lið sem eftir eru.

Hrímnir
Fyrsta liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS í hestaíþróttum 2019 er sigurlið sl. fjögurra ára, lið Hrímnis. Liðsstjóri þessa sigursæla liðs er sem fyrr Þórarinn Eymundsson, tamningamaður og reiðkennari á Hólum.

Auk Tóta eru í liðinu: Líney María Hjálmarsdóttir bóndi og reiðkennari á Tunguhálsi, Valdís Ýr Ólafsdóttir tamningakona og reiðkennari, Finnur Jóhannesson Hólanemi og Sina Scholz reiðkennari við Hólaskóla. Þjálfari Hrímnis er Arndís Brynjólfsdóttir reiðkennari og þjálfari á Vatnsleysu.

 

 

Þúfur
Annað liðið sem kynnt hefur verið til leiks í Meistaradeild KS er lið Þúfna. Það er skipað fjórum flinkum konum og þeim fylgir einn karl sem reyndar er enginn meðalmaður.

Liðsstjóri er Mette Mannseth yfirreiðkennari á Hólum sem ávallt hefur verið við toppinn í einstaklingskeppninni. Með henni eru Barbara Wenzl reiðkennari, Lea Busch nemi á Hólum, Artemisia Bertus reiðkennari og tamningakona á Nautabúi, sem kemur ný inn í liðið og Gísli Gíslason þjálfari á Þúfum. Það má búast við hörkukeppni hjá þessu liði sem ávallt býr yfir góðum hestakosti og efalaust ætlar sér stóra hluti í vetur.

 

Hofstorfan
Þriðja liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS í hestaíþróttum er lið Hofstorfunar. Liðið er skipað miklu keppnisfólki sem finnst allt annað en sigur vera tap. Liðsstjóri er Elvar E. Einarsson á Skörðugili.

Með Elvari í liði er þjálfarinn á Narfastöðum Bjarni Jónasson, Skapti Steinbjörnsson formaður Skagfirðings og hrossaræktandi á Hafsteinsstöðum, Lilja S. Pálmadóttir eigandi Hofstorfunar og Freyja Amble.

Á Facebooksíðu Meistaradeildarinnar segir að Bjarni Jónasson hafi ætíð verið í baráttunni um stigahæsta einstaklinginn og spurning hvort Lilja mæti með Móa sinn en þau sigruðu fjórganginn í fyrra. Þarna verður ekkert gefið eftir og metnaður lagður í hlutina.

 

Skoies Prestige
Þá er komið að fjórða liðinu sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS en það er lið Skoies Prestige. 
Liðsstjóri þess er Skagfirski Húnvetningurinn Elvar Logi Friðriksson tamningamaður í Grafarkoti. Með honum er Fanney Dögg Indriðadóttir reiðkennari, Lækjamótsvíkingurinn Ísólfur Líndal Þórisson, Jóhann B Magnússon bóndi á Bessastöðum og þeim til halds og trausts skeiðmeistarinn Svavar Örn Hreiðarsson.

 

Kerckhaert
Fimmta liðið sem við kynnum er lið Kerckhaert. Knaparnir í þessu liði eru sóttir til Hóla og í Lýtingsstaðahreppinn. Kennarar og nemendur sem verða undir stjórn Péturs Sveinssonar reiðkennara og tamningamanns á Saurbæ.

Með Pétri eru þau Þorsteinn Björnsson reiðkennari á Hólum, Heiðrún Ósk Eymundsdóttir reiðkennari og tamningakona á Saurbæ, Finnbogi Bjarnason nemandi á Hólum og Sigrún Rós Helgadóttir þjálfari og tamningakona á Varmalæk. 
Forvitnilegt lið sem gæti gert góða hluti í vetur.

 

Team Byko
Sjötta liðið sem við kynnum að þessu sinni í Meistaradeild KS er Team Byko. Baldvin Ari Guðlaugsson er liðsstjóri og honum fylgja Guðmundur Karl Tryggvason, Viðar Bragason tamningamaður á Björgum, dóttir hans Fanndís Viðarsdóttir reiðkennari og Vignir Sigurðsson þjálfari í Litlu-Brekku.

Sem fyrr er það okkur mikil ánægja að hafa lið austan Tröllaskaga með okkur í deildinni. Þarna eru saman komnir hörku keppnismenn úr Eyjafirðinum. Ekki skemmir fyrir að fimmgangurinn verður haldinn á þeirra heimvelli í Léttishöllinni á Akureyri.

 

Leiknisliðið/ Hestakerrur
Sjöunda liðið í ár er Leiknisliðið en það var efst í úrtökunni sem haldin var fyrr í janúar. Tveir knapar koma að sunnan en það eru hjónin Snorri Dal, liðsstjóri, og Anna Björk Ólafsdóttir. Með þeim í liði er skeiðmeistarinn Konráð Valur Sveinsson og Eyfirðingarnir Höskuldur Jónsson og Stefán Birgir í Litla-Garði.

 

 

Íbishóll/Sunnuhvoll
Áttunda og síðasta liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS í ár er liðið Íbishóll/Sunnuhvoll.

Í þessu liði eru reiðkennarinn Arnar Bjarki Sigurðarson, Hólaneminn Árný Oddbjörg Oddsdóttir og Glódís Rún Sigurðardóttir. Ásamt þeim eru feðgarnir á Íbishóli, Guðmar Freyr Magnússon og Magnús Bragi Magnússon, en Maggi er einnig liðsstjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir