Mette Mannseth valin knapi ársins 2021

Metta umkringd verðlaunagripum. MYND: SKAGFIRÐINGUR.IS
Metta umkringd verðlaunagripum. MYND: SKAGFIRÐINGUR.IS

Í gær var tilkynnt hestamannafélagið Skagfirðingur hverjir væru titilhafar ársins 2021 hjá félaginu. Knapi ársins 2021 er Mette Mannseth en hún átti góðu gengi að fagna á árinu.

Í frétt á heimasíðu Skagfirðings segir: „Mette sigraði A-flokk á Fjórðungsmótinu í Borgarnesi á hesti sínum Kalsa frá Þúfum og var með tvö hross í A-úrslitum í B-flokki þau List frá Þúfum og Blund frá Þúfum ásamt því að vera í þriðja sæti í skeiði á Vívalda frá Torfunesi. Á gríðarlega sterku Íslandsmóti reið hún fjórum hestum til úrslita þau Kalsa frá Þúfum í fimmgangi, List frá Þúfum í tölti, Blund frá Þúfum í slaktaumatölti og Skálmöld frá Þúfum í fjórgangi. Hún náði einnig virkilega góðum árangri á Íþróttamóti UMSS og Skagfirðings á Hólum í vor þar sem hún sigraði slaktaumatölt, fjórgang og gæðingaskeið ásamt því að hjóta annað sæti í tölti og fimmgangi. Hæstu einkunn ársins í gæðingaskeiði eiga Mette Mannseth og Vivaldi frá Torfunesi. Mette Mannseth hlaut reiðmennskuverðlaun FT á Fjórðungsmótinu og í texta frá FT sagði: „Reiðmennskuverðlaun FT er viðurkenning þar sem saman fer framúrskarandi reiðmennska, áverkalausir hestar og prúð framkoma á mótinu í heild sinni. Mette Mannseth hefur sýnt það með fjölda hrossa á mótinu, flest úr eigin ræktun. Uppúr stendur vel þjálfuð hross, einstaklega falleg framkoma, ósýnilegar ábendingar, mikil orka og útgeislun. Knapi og hross verða svo sannarlega eitt.“

Mette Moe Mannseth er íþrótta -og gæðingaknapi ársins hjá Skagfirðingi, Eyrún Ýr Pálsdóttir er skeiðknapi ársins, Guðmar Freyr Magnússon knapi ársins í ungmennaflokki og Pétur Grétarsson knapi ársins í áhugamannaflokki.

Stjórn Skagfirðings verðlaunaði Íslandsmeistara sína frá því í sumar en það voru Skagfirðingarnir Eyrún Ýr Pálsdóttir sem sigraði fimmgang á Hrannari frá Flugumýri II og Guðmar Freyr Magnússon sem sigraði tölt ungmenna á Sigursteini frá Íbishóli.“

Þá kemur fram að stjórn Skagfirðings óskar knöpum til hamingju með árangurinn á árinu sem er að líða. „ Við þökkum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir hestamannafélagið Skagfirðing á árinu, kringum alla viðburði félagsins. Án ykkar væri þetta ekki mögulegt.“

Sjá myndir frá verðlaunaafhendingu hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir