Minningargjöf um Sigrúnu Kristínu Þórðardóttur

Hluti spilafélaga Sigrúnar Kristínar við afhendingu skiltisins sem sett hefur verið upp á reiðhöllina Þytsheima á Hvammstanga. Myndir: Árborg Ragnarsdóttir.
Hluti spilafélaga Sigrúnar Kristínar við afhendingu skiltisins sem sett hefur verið upp á reiðhöllina Þytsheima á Hvammstanga. Myndir: Árborg Ragnarsdóttir.

Sunnudaginn 1. maí komu félagar í hestamannafélaginu Þyt saman við reiðhöllina á Hvammstanga til að taka á móti skilti til merkingar á höllinni. Það voru spilafélagar Sigrúnar Kristínar Þórðardóttur sem gáfu skiltið til minningar um Sigrúnu sem lést þann 8. apríl 2019. Sigrún var formaður Þyts þegar höllin var byggð og var hún aðal hvatamaður að byggingu hennar.

Hugsun hennar varð að veruleika og á árunum 2008 - 2010 var reiðhöllin byggð. Þytsfélagar voru einbeittir og unnu mikið þrekvirki við bygginguna. Árið 2010 var opnunarhátíð og höllin vígð. Síðar fór fram samkeppni um nafn á húsið og varð nafnið Þytsheimar fyrir valinu. Nú er höllin merkt og sómir sér vel við hesthúsabyggðina þar sem hún nýtist vel við þjálfun, kennslu og keppni. Vonum við að svo verði áfram. Formaður hestamannafélagsins Þyts, Pálmi Geir Ríkharðsson, veitti gjöfinni móttöku. Einnig var útbúið skjal með nöfnum gefenda og mun það verða hengt upp á kaffistofu Þytsheima.

Laglega fer skiltið á Þytsheimum.

Sigrún var mikil hestakona og átti hún m.a. eitt áhugamál þar fyrir utan en það var að spila kínaskák. Þann 9. október 2001 komu Sigrún og nokkrar aðrar konur saman og hófu að spila þetta spil og stofnuðu þar með þennan spilaklúbb. Klúbburinn er enn til og er spilað einu sinni í viku nánast allan veturinn og eitthvað á sumrin.
Eftir afhendingu var brunað að Dæli í Víðidal og haldið minningarmót í kínaskák um Sigrúnu. Tuttugu konur mættu í keppnina í „sólardalinn“ og var glaumur og gaman eins og vant er þegar spilafélagarnir hittast. Félagar í spilaklúbbnum hafa farið á Íslandsmeistaramót í kínaskák sem haldið hefur verið á Akureyri mörg undanfarin ár.

/Árborg Ragnarsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir