Niðurstöður kynntar úr fjölþjóðlegri rannsókn sem gerð var á Landsmóti hestamanna sumarið 2016

Frá Landsmóti á Hólum. Mynd: ÓAB.
Frá Landsmóti á Hólum. Mynd: ÓAB.

Háskólinn á Hólum og Landssamband hestamannafélaga kynntu í dag á formannafundi Landssambands hestamanna niðurstöður rannsóknar sem fjölþjóðlegur rannsóknarhópur vann á Landsmóti hestamanna á Hólum sumarið 2016.  Rannsóknahópurinn kemur frá Bretlandi, Noregi og Svíþjóð auk Íslands og eru meðlimir hans sérfræðingar á ýmsum sviðum viðburðahalds og ferðamála.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að afla heildstæðrar þekkingar um Landsmót hestamanna sem viðburð. Frumniðurstöður helstu rannsóknaþátta eru birtar í þessari ritstýrðu bók en frekari úrvinnsla gagna sem og kynning niðurstaðna er fyrirhuguð á alþjóðlegum vettvangi.

Meðal þess sem fengist var við í rannsókninni er efnahagslegt mikilvægi viðburðarins, upplifun og hagsmunir heimamanna, upplifun gesta, viðhorf ræktenda, sýnenda og sjálfboðaliða og áhrif viðburðarins á ímynd svæðisins og landsins sem áfangastaðar. Fjölþættum aðferðum er beitt við úrvinnslu og greiningu gagna.

Megin niðurstaða af rannsókninni á Landsmóti á Hólum 2016 er að mótið stóðst og fór að hluta til fram úr væntingum markhópsins. Væntingar til mótsstaðarins kunna að hafa verið minni sökum þess hve seint hann var ákveðinn, en upplifun gesta og heimamanna af honum var jákvæð. Framkvæmd mótsins fékk jákvæða dóma meðal þátttakenda og þá sérstaklega að mótsstaðurinn bauð uppá aðstöðu sem þjónaði bæði áhorfendum, keppendum, sýnendum og hrossum vel.

Önnur megin niðurstaða er að marka þarf skýrari stefnu um þjónustu við erlenda gesti og sjálfboðaliða. Ekki er gefið að ástæða sé til að markaðssetja mótið fyrir breiðari markhóp, fremur virðist þörf á að efla þjónustu við þann afmarkaða markhóp sem tilheyrir Íslandshestaheiminum í öðrum löndum. Fyrir erlenda gesti er mikilvægt að kynna dagskrá og skipulag mótsins með löngum fyrirvara. Þá er rétt að hafa í huga að þó það sé vissulega góður árangur hve stór hluti Landsmótsgesta er tryggur markhópur sem lætur sig helst ekki vanta þá er 6% nýliðun meðal innlendra gesta hugsanlegt áhyggjuefni til lengri tíma litið.

Í þriðja lagi er ljóst að efnahagsleg áhrif Landsmóts hestamanna eru umtalsverð á því svæði sem mótið er haldið en varlega áætlaðar niðurstöður gera ráð fyrir að efnahagsleg áhrif mótsins meðan á því stóð, hafi verið um 160 milljónir íslenskra króna. Eru þá ótalin önnur efnahagsleg áhrif, svo sem velta viðburðarins sjálfs.

Næsta Landsmót hestamanna fer fram í Reykjavík dagana 1.-8. júlí 2018 og er undirbúningur fyrir það þegar kominn í fullan gang og miðasala þegar komin af stað.

Hægt er að nálgast rafbókina með niðurstöðum rannsóknanna á Landsmóti hestamanna 2016 á vef Háskólans á Hólum, www.holar.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir