Reiðhöllin slúttar vetrarstarfinu í kvöld

Frá keppni í KS deildinni í vetur. Mynd: KS deildin.
Frá keppni í KS deildinni í vetur. Mynd: KS deildin.

Í kvöld mun Reiðhöllin Svaðastaðir slútta vetrarstarfinu með formlegum hætti. Starfið í vetur hefur verið hefðbundið. Það hófst í byrjun september að vanda, en þá hóf Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra kennslu á Hestabrautinni og Iðja hæfing með æfingar fyrir fatlaða fylgdi í kjölfarið. Þessir tveir aðilar eru með fasta tíma í höllinni allan veturinn fyrir iðkendur sína. Í  lok september var svo Laufskálaréttarhelgin með sína föstu viðburði sem eru sýning og skemmtidagskrá á föstudagskvöldi og dansleikur á laugardagskvöldinu. Hvoru tveggja mannmargir viðburðir.

Um miðjan febrúar hefst svo keppnistímabilið, en þá eru vikulega til skiptis KS deildin sem er keppni atvinnumanna á svæðinu og Skagfirska mótaröðin sem er áhugamannadeildin hana sóttu keppendur allt frá Hvammstanga til Eyjafjarðar. Kvennatölt var haldið fyrir páskana með metþátttöku, og barna- og unglingastarf hestamannafélagsins Skagfirðings fór af stað eftir áramótin og var heilmikil gróska í því. Sýningin Æskan og hesturinn í lok apríl er afrakstur þess, en þar sýndu ungir iðkendur af öllu Norðurlandi listir sínar.

Öll er þessi starfsemi háð vinnu sjálfboðaliða og fátt yrði um viðburði í höllinni ef fólk væri ekki viljugt að gefa vinnu sína. Þess vegna viljum við umbuna okkar fólki og bjóðum sjálfboðaliðum og öðrum sem starfað hafa við keppnishald og sýningar í vetur að þiggja veitingar í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Án ykkar væri ekkert starf í höllinni.

Herlegheitin hefjast kl. 19:00 í kvöld við reiðhöllina og vonast er til að sem flestir sjái sér fært að mæta.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir