Saga hrossaræktar – félagskerfið, önnur grein :: Kristinn Hugason skrifar

Mynd: Kunnur hestur í eigu hrossaræktarsambands og notaður á vegum sambandanna víða um land: Gáski frá Hofsstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði (IS1973135980), fæddur Kristfríði Björnsdóttur. Sýndur á héraðssýningu 1977, aðaleink. 7,75 og á LM78 á Skógarhólum, aðaleink. 8,32. Hesturinn var seldur Hrossaræktarsambandi Suðurlands árið 1980. Í WF eru skráð 654 afkvæmi hestsins og 169 þeirra með fullnaðardóm. Myndin er tekin á Skógarhólum árið 1978, knapi: Gísli Höskuldsson. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Einar E. Gíslason.
Mynd: Kunnur hestur í eigu hrossaræktarsambands og notaður á vegum sambandanna víða um land: Gáski frá Hofsstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði (IS1973135980), fæddur Kristfríði Björnsdóttur. Sýndur á héraðssýningu 1977, aðaleink. 7,75 og á LM78 á Skógarhólum, aðaleink. 8,32. Hesturinn var seldur Hrossaræktarsambandi Suðurlands árið 1980. Í WF eru skráð 654 afkvæmi hestsins og 169 þeirra með fullnaðardóm. Myndin er tekin á Skógarhólum árið 1978, knapi: Gísli Höskuldsson. Mynd úr safni SÍH, ljm.: Einar E. Gíslason.

Nú skal ofinn áfram þráðurinn frá síðustu grein þar sem fjallað var um stofnun fyrsta hrossaræktarfélagsins og hugmyndina að baki þess sem byggist á Norður-Evrópska eða Skandinavíska ræktunarmódelinu sem er við lýði enn í dag og er í raun grunnurinn að sameiginlegu skýrsluhaldi og útreikningi á kynbótamati. Þó staða hrossaræktarfélaganna hafi gerbreyst frá því er var.

Hrossaræktarfélögin og hrossaræktarsamböndin

Í beinu framhaldi af stofnun fyrsta hrossaræktarfélagsins, árið 1904 eins og fram hefur komið, voru þau stofnuð hvert af öðru á næstu árum. Annað félagið var Hrossaræktarfélag Fljótsdalshéraðs, stofnað árið 1907, síðan voru stofnuð fjögur félög í Árnessýslu (í Hrunamanna-, Gnúpverja-, Hraungerðis- og Ölfushreppi), eitt í Rangárþingi (Hrossaræktarfélagið Atli í Ásahreppi) og í Vestur-Eyjafjallahreppi. Fyrsta félagið á Norðurlandi, Hrossaræktarfélag Rípurhrepps í Skagafirði, var stofnað 1919 og fleiri bættust svo fljótlega við. Hið fyrsta á Vesturlandi var Hrossaræktarfélag Reykholtshrepps og var það stofnað 1924. Forskrift að lögum fyrir hrossaræktarfélög voru fyrst birt í Búnaðarritinu 1916 og var samin af Sigurði Sigurðssyni ráðunaut (1864-1926) sem sinnti bæði nautgripa og hrossarækt hjá Búnaðarfélagi Íslands frá andláti Ingimundar Guðmundssonar árið 1912, en Sigurður hafði verið ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Suðuramtsins fyrir stofnun Búnaðarfélags Íslands en það var árið 1899 og síðan frá 1900 til dauðadags hjá BÍ.

Theodór Arnbjörnsson hóf störf sem sauðfjárræktarráðunautur ásamt því að taka við hrossaræktinni árið 1920 en eftir 1927 sinnti hann hrossaræktinni eingöngu. Þegar Theodór hóf störf voru hrossaræktarfélögin tíu en voru orðin 44 árið 1930. Í fyrrnefndri forskrift var svo sagt um tilgang félaganna: „að bæta hrossakynið hjá félagsmönnum þannig, að hrossin verði stór, hraust, fallega vaxin, einlit, með föstu arfgengi.“ (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, Jónas Jónsson, Skrudda 2013, bls. 242). Í tilvitnuninni hér á undan vekja nokkur atriði athygli. Þannig er áhersla á að hrossin verði stór, hraust og vel byggð; hvað fyrsta atriðið varðar sést að það komst snemma á dagskrá en sóttist ekki vel lengi framan af en þeim mun betur nú seinni áratugina, þannig að segja má að til lýta smávaxin hross heyri orðið til undantekninga, það sést og að áhersla á hraustleika hrossanna komst snemma á dagskrá og hvað sköpulagið varðar hefur það verið á stöðugri uppleið.

Áherslan á að hrossin séu einlit var næsta örugglega komið erlendis frá en almennt var þar litið svo á að litafjölbreytni væri óræktareinkenni og lokakrafan sem var orðuð svo; „með föstu arfgengi“ var krafa um einsleitni, þ.e. að hrossin væru samstæð og var hugtakið „kynfesta“ löngum notað yfir það sem hér er kallað „fast arfgengi“ en þá var orðið arfgengi komið með fast skilgreinda merkingu; hugtakið „kynfesta“ kemur iðulega fyrir í dómsorðum um afkvæmahópa um og upp úr miðri síðustu öld. Ákvæðið um fýsileika hrossanna á sölumarkaði sem var í lögum fyrsta félagsins sést ekki lengur en ráðunauturinn sem stóð að þeirri félagsstofnun, Guðjón Guðmundsson, hafði mikið inngrip í markaðsmál og hafði kynnt sér þau sérstaklega erlendis eins og fyrr hefur verið vikið að í greinarflokknum.

Fljótlega komu þó upp vandkvæði að halda öllum þessum félögum virkum og var brugðist við því með stofnun hrossaræktarsambanda sem störfuðu á stærri svæðum en félögin, sum í heilu landsfjórðungunum, en félögin mynduðu grunneiningar sambandanna og störfuðu sem deildir innan sambandanna, einkum þar sem samböndin voru stofnuð það snemma að deildirnar höfðu ekki lognast áður útaf. Fyrsta sambandið var Hrossaræktarsamband Suðurlands, stofnað 1949, á Vesturlandi starfaði lengst Hrossaræktarsamband Vesturlands, stofnað 1964, en undanfari þess var Hrossaræktarsamband Borgarfjarðar sem stofnað var 1954, á Vesturlandi starfaði og löngum Hrossaræktarsamband Dalamanna sem stofnað var 1977.

Hrossaræktarsamband Skagafjarðar var stofnað 1955 en var útvíkkað 1958 er Hrossaræktarsamband Norðurlands var stofnað en það var svo leyst upp 1970 og þá urðu til: Hrossaræktarsamband Skagfirðinga, Hrossaræktarsamband Austur-Húnvetninga og Hrossaræktarsambandið Haukur sem starfaði í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu á árunum 1970 til 1980 en þá var starfið endurskipulagt og stofnað Hrossaræktarsamband Eyfirðinga og Þingeyinga. Hrossaræktarsamband Vestur-Húnvetninga var stofnað árið 1979.

Á Austurlandi starfaði hrossaræktardeild innan Hestamannafélagsins Freyfaxa á Héraði en árið 1991 var Hrossaræktarsamband Austurlands stofnað. Í Hornafirði var samstarf með Hestamannafélaginu Hornfirðingi og Búnaðarsambandinu þar en árið 1984 var Hrossaræktarsamband Austur-Skaftfellinga stofnað. Hrossaræktarsamböndin störfuðu svo saman innan Hrossaræktarsambands Íslands en stjórnun þess var á hendi hrossaræktarsambandanna hvers fyrir sig, eitt ár í senn og gekk það á milli sambandanna sólasinnis um landið og stóðu viðkomandi sambönd jafnframt fyrir ársfundi þar sem stjórnir allra sambandanna komu saman.

Starfsemi hrossaræktarsambandanna

Meginhlutverk hrossaræktarsambandanna var stóðhestahald en samböndin voru aðaleigandi stóðhesta á Íslandi um áratugaskeið en hins vegar hvarf sú áhersla sem upphaflega var inni hjá hrossaræktarfélögunum, að samþætta ræktunarstarf félagsmanna þess í stað varð sá skilningur ráðandi að markmiðssetningin – kynbótamarkmiðið - birtist í megin atriðum í gegnum niðurstöður kynbótasýninga og eftir 1990 í skilgreindum stigunarkvarða, sjá Kynbótadómar og sýningar / Studhorse Judging and Studshows / Zuchtpferdebeurteilung und Körungen, ritstj. Kristinn Hugason, BÍ 1992. Jafnframt varð almennt viðurkennt að endanlegt forsvar var hvers ræktanda fyrir sig; þeir settu sér, sitt eigið ræktunarmarkmið, enda var lögð áhersla á hjá stærstu samböndunum sem áttu flesta hestana að hafa fjölþætt úrval til að bjóða upp á, auk leiguhesta en vitaskuld var alltaf töluvert af hestum í einkaeigu, þó að fjöldin væri ekki í líkingu við það sem nú er.

Á þessum tíma, þ.e. síðustu áratugum nýliðinnar aldar, var og blómatími sameignarfélaga um stóðhesta. Notkun þeirra hesta var mest hjá eigendunum sjálfum, þó útleiga hafi þekkst, má því segja að þetta form hafi stuðlað að ákveðinni einsleitni hjá þeim aðilum sem í hlut áttu. Drjúgur þáttur í starfi hrossaræktarsambandanna var og söfnun og skil á folaldaskýrslum oft í samstarfi við viðkomandi búnaðarsambönd og aðkoma að sýningahaldi en þar komu búnaðarsamböndin mjög að málum en megin ábyrgð á þessum þáttum, þ.e. folaldaskýrsluhaldinu og sýningunum, var í höndum hrossaræktarráðunauts BÍ.

Folaldaskýrsluhald BÍ, þ.e. skráning folalda og afdrifa þeirra, hófst árið 1954 og stóð yfir til 1990, þegar allsherjarskráning hrossastofnsins var gerð og tölvuvætt skýrsluhald var tekið upp samfara upptöku fæðingarnúmerakerfisins (1987). Mikilvægar upplýsingar um frjósemi o.þ.h. þætti söfnuðust með folaldaskýrsluhaldinu auk þess sem búfjárræktarstyrkir úr ríkissjóði voru greiddir út til hrossaræktarsambandanna á grundvelli þess.

Niðurlagsorð

Í næstu grein verður framhaldið umfjöllun um þróun félagskerfis hrossaræktarinnar og athyglinni þá beint að öðrum félögum innan hrossaræktarinnar.

Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birst í 14. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir