Sina Scholz fór úr því að vera varamaður Skagfirðings í 6. sæti A-úrslita LM hestamanna

Sina Scholz og Nói frá Saurbæ vöktu mikla athygli fyrir vasklega framgöngu á Landsmóti hestamanna í Reykjavík. Mynd af FB-síðu Sinu Scholz.
Sina Scholz og Nói frá Saurbæ vöktu mikla athygli fyrir vasklega framgöngu á Landsmóti hestamanna í Reykjavík. Mynd af FB-síðu Sinu Scholz.

Landsmóti hestamanna lauk í gær með úrslitakeppni í hinum ýmsu greinum. Verðlaunabikar í A-flokkur gæðinga verður áfram í stofunni hjá Eyrúnu Ýr Pálsdóttur frá Flugumýri í Skagafirði, sem hampaði honum eftir síðasta Landsmót, en sambýlismaður hennar, Teitur Árnason, gerði sér lítið fyrir og sigraði nokkuð örugglega á hestinum Hafsteini frá Vakurstöðum, sem keppir fyrir hönd hestamannafélagsins Fáks. Eyrún landaði 7. sætinu á Sjóði frá Kirkjubæ.

Það vakti verðskuldaða athygli að Sina Scholz, Hestamannafélaginu Skagfirðingi, náði 6. sætinu eftir vasklega framgöngu gæðingsins Nóa frá Saurbæ, en þau fóru á Landsmót sem varahestur/knapi. Eftir forkeppni Nói og Sina í 22. sæti með einkunnina 8,67. Í milliriðli enduðu þau í 7.  sæti með 8,73 sem fleytti þeim í úrslit þar sem þau náðu 6. sætinu og enn hærri einkunn eða 8,77. Vel gert.

Í unglingaflokki gerði Júlía Kristín Pálsdóttir frá Flugumýri vel er hún landaði 3. sætinu á gæðingi sínum  Kjarval frá Blönduósi með einkunnina 8,685. Júlía og Kjarval voru í öðru sæti eftir keppni í milliriðli með 8,52.

Í ungmennaflokki átti Skagfirðingur tvo fulltrúa í A úrslitum. Annars vegar voru það Viktoría Eik Elvarsdóttir og Gjöf frá Sjávarborg og Guðmar Freyr Magnússon á Óskasteini frá Íbishóli. Viktoría og Gjöf kræktu sér í 5. sætið með einkunnina 8,54 en Guðmar og Óskasteinn þurftu að hætta keppni sem var sárgrætilegt þar sem þeir urðu í 3. sæti í milliriðli með einkunnina 8,60.

Í barnaflokki náðu þau Þórgunnur Þórarinsdóttir og Grettir frá Saurbæ besta árangri Skagfirðingsfélaga, 13. sætinu með einkunnina 8,65, og unnu sig upp um tvö sæti frá milliriðlum 8,42.

Þá voru Þúfur í Skagafirði valið Ræktunarbú mótsins en þar ráða ríkjum hjónin Mette Moe Mannseth og Gísli Gíslason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir