Skagfirðingur slær saman uppskeru- og árshátíð

Vel hefur gengið að undirbúa árshátíð Hestamannafélagsins Skagfirðings sem haldin verður í Melsgili 3. nóvember nk. Þetta árið var ákveðið að slá saman uppskeruhátíðinni og árshátíðinni og mun skemmtinefndin njóta aðstoðar nokkurra lands- og heimsþekktra einstaklinga. Að sögn Rósu Maríu Vésteinsdóttur er því ekki annað að vænta en að hestamenn í Skagafirði eigi eftir að skemmta sér mjög vel enda ekki þekktir fyrir annað.

„Okkar landsþekkti hestamaður og gleðipinni Ingimar Ingimarsson á Syðra-Skörðugili ætlar að stýra kvöldinu en einnig fáum við heimsþekktan leikstjóra til að aðstoða keppnisnefndina við verðlaunaafhendinguna og fer vel á því að hafa vanann mann í því hlutverki. Veittar eru viðurkenningar fyrir bestan árangur í ungmennaflokki, áhugamannaflokki, íþróttaknapa ársins, skeiðknapa ársins, gæðingaknapa ársins og knapa ársins. Að sjálfsögðu verður flutt gamanmál og sungið eins og enginn sé morgundagurinn. Síðan ætlum við að stíga trylltan dans fram eftir nóttu við tóna frá hljómsveitinni Staksteinar,“ segir Rósa María, ein fjögurra kvenna er skipa nefndina en auk hennar eru þær Ása Hreggviðsdóttir, Helga Rósa Pálsdóttir og Sara Gísladóttir.

Nú hafa félagar ekki verið duglegir að mæta hingað til, má búast við að það breytist?

„Nú er orðið þó nokkuð langt síðan hestamenn í Skagafirði héldu árshátíð í Miðgarði fyrir fullu húsi. Í dag eru breyttir tímar og mikið um að vera hjá hestamönnum nær allt árið um kring. Við gerðum tilraun til að setja saman árshátíð í mars og sáum strax að sá tími hentar ekki þar sem mikið er um að vera hjá keppnisfólkinu okkar en það er út og suður frá enda janúar og fram í október. Því var ákveðið að gera þetta með þessu sniði og færa árshátíðna fram á haustið og sameina hana uppskeruhátíðinni. Það vita það allir að það tekur tíma að festa eitthvað í sessi og til þess að gera viðburð að einhverju eftirsóknarverðu þá þurfa menn að mæta og styðja við bakið á því sem er verið að gera,“ segir Rósa María og kveður með þessum orðum: „Þegar tveir eða fleiri hestamenn koma saman er alltaf gaman og því engin ástæða til annars en að þessi árshátíð sé upphafið af einhverju frábæru.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir