Söfnuðu fyrir reiðhallarspeglum

Flottir unglingar ásamt Þórarni Eymundssyni framan við mikla speglaröð sl. fimmtudag. Mynd: PF.
Flottir unglingar ásamt Þórarni Eymundssyni framan við mikla speglaröð sl. fimmtudag. Mynd: PF.

Unglingadeild hestamannafélagsins Skagfirðings hefur frá árinu 2017 staðið í alls kyns fjáröflunum til kaupa á speglum í Reiðhöllina Svaðastaði og voru þeir settir upp í desember. Þegar blaðamaður Feykis leit við í reiðhöllinni sl. fimmtudagskvöld stóðu unglingarnir sjoppuvaktina og rukkuðu inn á sýnikennslu Þórarins Eymundssonar.

Vel var mætt í höllina enda forvitnilegt að sjá hvernig Tóti ætlar að þjálfa þau hross sem hann stefnir með í sýningar og keppni á árinu. Hann er ánægður með framtak unglingadeildarinnar og segir speglana frábæra og virki mjög vel.

„Þeir gera það kleift að átta sig miklu betur á hvernig prófíllinn á hestinum er, taktur og hreyfingar og hvar hann er að setja niður fæturna o.fl. Og svo prófíllin á knapanum. Virkilega gott framtak hjá unglingunum, frábært!“

Að sögn þeirra Jódísar Káradóttur og Stefaníu Sigfúsdóttur er unglingadeildin virkur hópur ungra áhugasamra hestamanna sem kemur reglulega saman og hefur gaman. „Við höldum fundi, tölum saman og pöntum pitsu. Maður þarf ekki endilega að vera að keppa til að vera í deildinni, það má líka bara hafa áhuga á hestum til að vera með. Við viljum fá sem flesta með. Þetta á að vera hópskemmtun,“ segja þær stöllur.

Svona reiðhallarspeglar eru ekki neinir venjulegir speglar þar sem þeir þurfa að þola ýmislegt hnjask, grjótkast og hitabreytingar. Jódís og Stefanía segja að þeir tíu speglar sem keyptir voru hafi kostað um eina milljón. Til þess að fjármagna kaupin hefur unglingadeildin staðið fyrir ýmsum fjáröflunum undanfarin ár, m.a. með því að selja sessur og reka reiðhallarsjoppuna o.fl. Það sem gaf þó mest var folatollahappdrættið sem deildin stóð fyrir en þá fengu krakkarnir folatolla hjá stóðhestaeigendum sem heppnir miðakaupendur fengu í vinning.

„Speglarnir hjálpar manni ótrúlega mikið og meira en við áttum von á. Þeir sýna manni vel hvernig hesturinn beitir sér og hvernig við beitum hestinum, bætir ásetuna mjög mikið og maður fær miklu meiri tilfinningu fyrir hestinum og sérstaklega ef verið er að æfa nýjar fimiæfingar. Þá sést hvenær þær eru gerðar rétt,“ segja Jódís og Stefanía.

Einn viðmælandi Feykis segir framtak unglingadeildarinnar sérlega óeigingjarnt þar sem allir njóta góðs af sem reiðhöllina nota.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir