Solla á Miðsitju heiðruð

Við afhendingu heiðursverðlauna Félags hrossabænda. Sveinn Steinarsson, formaður Félagshrossabænda, Sólveig Stefánsdóttir og Margrét Jóhannsdóttir Þorsteinssonar. Mynd: Bernódus Óli Einarsson.
Við afhendingu heiðursverðlauna Félags hrossabænda. Sveinn Steinarsson, formaður Félagshrossabænda, Sólveig Stefánsdóttir og Margrét Jóhannsdóttir Þorsteinssonar. Mynd: Bernódus Óli Einarsson.

Þann 28. október sl. var haldin, í Gullhömrum í Grafarholti, uppskeruhátíð hestamanna á landsvísu í boði Landssambands hestamanna og Félagi hrossabænda. Þar var hestaafreksfólk heiðrað fyrir afrek sín á sýningar- og keppnisvellinum og sérstök heiðursverðlaun FHB kom í hlut Sólveigar Stefánsdóttur frá Miðsitju í Skagafirði.

Sveinn Steinarsson, formaður Félagshrossabænda, sagði í ræðu sinni það vera ánægjulegt að heiðra einn af sínum félögum, veita grip sem virðingarvott þeim sem hafa með fórnfýsi, ástríðu og dugnaði stuðlað að framförum á sviði hrossaræktar.  

„Það er gömul saga og ný að hross fangi hugi. Sumar þeirra sagna minna helst á þjóðsögur og ævintýri, jafnvel hreinar goðsagnir - en marka samt sem áður upphafið að merku ævistarfi og hversdagslífi þeirra sem við sögu koma, eru veruleiki en ekki draumur. Það er til saga af því að brúnt merfolald hafi verið á beit á túnbletti við sjúkrahúsið á Sauðárkróki, þar sem Sólveig Stefánsdóttir sótti vinnu. Henni varð tíðlitið út um gluggann sem vissi að túnblettinum, ekki einu sinni, ekki tvisvar og ekki þrisvar. Og til að gera langa sögu stutta, þá hafði Solla ekki frið í sínum beinum fyrr en þau Jói höfðu keypt títtnefnt folald fyrir morðfjár – sem að sögn var reyndar ekki til,“ sagði Sveinn við athöfnina. Folaldið sem um ræðir er Krafla frá Sauðárkróki, fædd Árna Gunnarssyni frá Reykjum á Reykjaströnd, dóttir Höfða-Gusts og Perlu frá Reykjum og var undirstaða hrossaræktunar þeirra Sólveigar og Jóhanns Þorsteinssonar, Sollu og Jóa vakra, á Miðsitju.

Krafla hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á LM 1998 á Melgerðismelum. Þrettán afkvæma hennar hafa gengist undir kynbótadóm og meðaltal fimm hæstu dómanna er 8,31. Hæst hafa verið dæmd Keilir (8,63), Samba (8,46) og Kraflar (8,28), öll frá Miðsitju. Kraflar og Keilir hafa báðir hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og  æðstu viðurkenningu í íslenskri hrossarækt: Sleipnisbikarinn.

Miðsitjuhross hafa löngum getið sér gott orð og unnið til mikilla afreka – síðast staðfesti það heiðursverðlaunahryssan Gunnvör frá Miðsitju, sem á Kröflu fyrir langömmu. Afkvæmi hennar slógu rækilega í gegn á landsmótinu í sumar og hlutu geysiháa dóma.

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir