Sölusýning Félags hrossabænda í reiðhöllinni á Króknum

Næstkomandi föstudag efnir Félag hrossabænda til sölusýningar í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki og hefst kl. 17:00. Markmiðið er að búa til markaðsglugga og auðvelda fólki að koma hestum sínum á framfæri, segir í tilkynningu frá FHB. Bein útsending verður frá viðburðinum sem verður dreift víða á Facebook og öðrum félagsmiðlum (fhb.is) og mun efnið lifa þar inni þannig fólk getur nálgast upptökuna af sínum hesti að lokinni sýningu.

Verðflokkarnir verða fjórir A - 0-750.000 kr., B - 750.001-1.500.000 kr., C - 1.500.001-3.000.000 kr. og D – yfir 3.000.000 kr. Skráning er á netfangið hf@bondi.is og lýkur á miðnætti annað kvöld, fimmtudag.

„Félag hrossabænda ákvað í haust standa fyrir tveimur sölusýningum, annarri í Sprettshöllinni og hinni í Svaðastaðahöllinni. Sýningin í Spretti var um síðustu helgi og gekk ljómandi vel, 40 hross voru skráð og áttu flestir að geta fundið hross við sitt hæfi á sýningunni. Það er þegar orðin prýðileg skráning á sýninguna í Svaðastaðahöllinni og eigum við því von á skemmtilegum viðburði næsta föstudag. Nú er um að gera að taka þátt og skrá sem fyrst,“ segir Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir