Stokkað upp í rekstri Söguseturs íslenska hestsins

Sögusetur íslenska hestsins hefur verið starfrækt í ríflega tvo áratugi en það var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla. Árið 2006 var það gert að sjálfseignarstofnun og eru stofnaðilar hennar Byggðasafn Skagfirðinga og Hólaskóli. Nú er setrið á krossgötum þar sem erfiðlega hefur gengið að tryggja fjármögnun á rekstur þess. Vegna óvissu sem ríkti um reksturinn fyrr á árinu var forstöðumanni setursins, Kristni Hugasyni, sagt upp störfum og því verið lokað tímabundið a.m.k.

Á heimasíðu Sögusetursins segir að hlutverk þess sé að vera alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um íslenska hestinn og halda úti sýningarstarfi um hvaðeina sem lýtur að íslenska hestinum. Í gömlu hesthúsi, sem stendur í hjarta Hólastaðar, hefur Sögusetrið haldið úti sýningunni Íslenski hesturinn, sem opnuð var 14. ágúst 2010.

„Sögusetrið hefur staðið fyrir málþingum og fyrirlestrum um hestinn og vinnur að því að efla samstarf og kynni milli áhugafólks um íslenska hestinn og er tengiliður og upplýsingamiðill fyrir alla þá sem vilja kynna sér sögu hans.

Sögusetrið safnar hestatengdum ljósmyndum og vistar þær. Valdar myndir eru skannaðar og eru þær aðgengilegar á netinu. Setrið tekur við munum og öðrum heimildum í samráði við sérhæfðar stofnanir svo sem skjala- og minjasöfn svo og stofnanir sem vinna að málefnum hrossaræktar og hestamennsku,“ segir á sogusetur.is.

Kristinn Hugason.

Í upphafi árs 2018 hófst samstarf milli Feykis og Kristins Hugasonar, þar sem sá síðarnefndi skrifaði greinar um íslenska hestinn á sem fjölbreyttasta hátt og voru birtir í 1. tölublaði flestra mánaða ársins síðan þá. Greinarnar eru orðnar 48 talsins og hægt að skoða þær á heimasíðu setursins. Í síðasta Feyki hefði 49. pistill Kristins átt að vera en því miður er komið að leiðarlokum þar sem setrinu hefur verið lokað, og Kristinn ekki lengur þar innan borðs.

Feykir greindi frá því í síðustu viku að Kristinn hafi verið ráðinn samskiptastjóri líftæknifyrirtækisins Ísteka. Fyrirtækið var stofnað árið 2000 og sérhæfir sig í að vinna lyfjaefni úr hryssublóði.

Ragnar Helgason.

Ný stjórn Söguseturs íslenska hestsins tók við í vor og segir Ragnar Helgason, einn stjórnarmanna og formaður atvinnu-, menningar og kynningarnefndar Skagafjarðar, að þá hafi allar fjárhirslur verið tómar og ekki úr neinu að moða. Mikil óvissa ríkti um það hvað væri framundan. Síðar komu viðbrögð frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu um aukin fjárframlög á árinu 2022 upp á X milljónir króna og verður starfsemi setursins endurskipulögð í framhaldi af því.

Fjármagn nýtt í stefnumótunarstarf

Ragnar útskýrir að nú sé verið að nýta tímann og í raun að skapa framtíð setursins og móta það upp á nýtt.

„Vonandi fæ ég staðfest svör frá ráðuneytinu fljótlega en það hafa líka komið styrkir frá sveitarfélaginu Skagafirði og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og fleirum. En nú erum við á núllpunkti.“

Með Ragnari í stjórn setursins eru þær Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga og Elisabeth Jansen, deildarstjóri hestafræðideildar Háskólans á Hólum. Hann segir að þegar þau taka sæti í stjórninni hafi þau staðið frammi fyrir stórum spurningum, hvort setrið myndi standa eða falla.

„Við viljum að sjálfsögðu ekki láta það falla, viljum gera eitthvað úr þessu. Þetta er gríðarlega flott setur, og kom mér reyndar á óvart, og miklir möguleikar í boði. Við viljum fara í uppbyggingarfasa og erum núna í mótun hvað er hægt að gera úr setrinu og hvernig hægt sé að gera þetta upp á nýtt til þess að byggja upp aftur og gera eitthvað meira úr þessu. Við erum á þeim stað að reyna að fikra okkur áfram og gera eitthvað með framtíð setursins að leiðarljósi. Hins vegar, ef við fáum enga fjármuni frá ríkinu á komandi árum, þá erum við í þeirri stöðu að óvíst er hvort við getum haft einhvern rekstur, það er bara svoleiðis. Það stendur og fellur með þeirri ákvörðun. Fjármagnið sem við fáum núna getum við nýtt í stefnumótunarstarf sem við ætlum að fara í. En það sem við þurfum er að fá fasta styrki í fjárlög, t.d. til fimm ára, til þess að við sjáum einhverja framtíð. Setrið hefur verið með þann bagga að vera rekið ár í senn og enginn veit hvað gerist næst. Kristinn hefur unnið gott starf á setrinu, með sínum greinum og öðru, en hefur alltaf verið bundinn af því að vita ekki hvað bíður handan hornsins. Hann hefur barist í því að fá samning við ráðuneytið og það er það sem við erum að gera núna. Við þurfum að fá þennan samning til að geta gert meira úr þessu setri og staðið stolt að frekari uppbyggingu og framþróun þess,“ segir Ragnar.

Vonast eftir föstum fjárframlögum

Þetta er þriðja sumarið sem ekki næst að halda sýningum setursins opnum að fullu en Covidið setti eðlilega stórt strik í reikninginn þau tvö á undan, eins og annars staðar. Ragnar segir það hafa verið sorglegt að hafa lokað í sumar en viðræður voru hafnar við aðila sem hefði getað sinnt ferðafólki sem vildi skoða sýningu setursins en svo fannst þeim aðila tíminn vera of knappur til að þjálfa upp nýjan starfsmann í svo stuttan tíma sem þá var eftir af tímabilinu.

Ragnar segir að í þeirri vinnu sem stjórnin stendur í núna sé að skoða aðra nýtingu setursins s.s. til kennslu og aukinnar ferðaþjónustu og stefnan sé klárlega að halda starfsemi setursins áfram. „Við viljum byggja það upp og gera meira úr því,“ segir hann.

Spurning um hvort setrið væri betur statt annars staðar með fjölda ferðamanna í huga og þá fleiri gesti segist Ragnar vilja athuga betur hvort ekki sé hægt að tengja setrið meira við Háskólann á Hólum. „Það held ég að sé hægt, að bæta því í kennslu. En hvort setrið eigi heima annars staðar til að fjölga ferðamönnum getur vel verið. Þar sem við erum að fara í þessa stefnumótun á setrinu, þurfum við að skoða hvað við viljum gera og hvernig framtíð setursins sé, því það er margt merkilegt þarna sem við viljum ekki að detti niður. Nú erum við í stjórninni að kasta fram hugmyndum um hvað við viljum gera og finna í hvaða átt við viljum fara, hvað við þurfum að gera til að hefja þessa mótunarvinnu sem við þurfum að fara í.“

Ragnar segir að um miðjan þennan mánuð ætti setrið að fá fjármuni til þeirrar sköpunarvinnu sem til stendur að fara í og með þann hug að föst fjárframlög fáist til þess að getað varið fjármunum í frekari uppbyggingu á setrinu. „En hins vegar ef við dettum ekki á þennan samning hjá ráðuneytinu þá þýðir það samt að við höfum reynt að bjarga því og finna hvað væri því fyrir bestu. En grunnurinn í því að bjarga setrinu er að fá það á fjárlög sem hefur verið baráttumál hjá stjórninni í langan tíma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir