Sýning Söguseturs íslenska hestsins á landsmóti hestamanna í Víðidal í Reykjavík 2018.

Skjáskot - mynd af sagnareflinum.
Skjáskot - mynd af sagnareflinum.

Í ár fögnum við Íslendingar 100 ára afmæli fullveldisins en það fengum við með formlegum hætti frá Dönum 1. desember 1918. Ýmislegt hefur verið gert til að minnast þessa áfanga og sérstök afmælisnefnd er að störfum, sjá nánar: https://www.fullveldi1918.is/

Afmælisnefnd fullveldisins auglýsti eftir verkefnum af þessu tilefni og urðu 100 verkefni fyrir valinu; þannig séð eitt fyrir hvert ár fullveldisaldarinnar og hlutu þau styrk úr framkvæmdasjóði fullveldisafmælisins. Sögusetur íslenska hestsins var einn þeirra aðila er styrk fékk. Inntakið í verkefni SÍH er að setja upp sýningu um íslenska hestinn og stöðu hestamennsku og hrossaræktar um fullveldið og framfarasóknina á fullveldistímanum. Sýningin yrði sett upp á landsmóti hestamanna í Víðidal í Reykjavík, 1. til 8. júlí 2018 og myndi þar kristallast hvernig frjáls og fullvalda þjóð hefur tryggt vöxt og viðgang síns þjóðarhests og komið honum á framfæri við heimsbyggðina og skapað honum, í samstarfi við aðrar þjóðir, þar sem áhugi hefur verið til staðar, viðgang og virðingu. Að loknu landsmótinu yrði sýningin sett varanlega upp í Skagafirði og gerð aðgengileg á heimasíðu SÍH: www.sogusetur.is

Nú skömmu fyrir áramót lá fyrir að SÍH fengi framgang með umsókn sína hjá afmælisnefndinni, jafnframt sem fleiri mikilvægir stuðningsaðilar komu til. Var þá tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið í samstarfi SÍH við RML, en þessir aðilar stóðu saman að sýningunni Uppruni kostanna sem opnuð var í húsnæði SÍH á Hólum á landsmótinu 2016, jafnframt sem hún er nú aðgengileg á heimasíðu SÍH undir slánni Gagnabanki og er þar hvoru tveggja á ensku og þýsku auk íslensku. Ráðist var í hugmyndavinnu og gagnaöflun og hönnuðir frá fyrirtækinu Hnotskógi fengnir. Niðurstaðan var sú að byggja á hinni fornu evrópsku arfleifð; sagnareflinum.

Sagnareflar þekktust hér á landi og er t.d. greint frá þeim í ritinu Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju sem Hið íslenzka bókmenntafjelag gaf út 1856. Frægastur slíkra refla er þó vafalaust Bayeux-refillinn sem er 70 metra langt og um 50 cm breitt refilsaumað klæði sem sýnir orrustuna við Hastings á Sussex-strönd 14. október 1066 en þar sigraði riddaralið Normanna enska fótgönguliða. Hugsanlega hefur hann verið fullgerður þegar ný dómkirkja var vígð í Bayeux í Normandí 1077. Odo, bróðir Vilhjálms bastarðs hins sigursæla, foringja Normanna, var þá orðinn biskup í Bayeux en hann tók þátt í orrustunni við Hastings.

Sagnarefill sá er hér um ræðir er þó vitaskuld ekki saumaður með refilsaumi eins og að fornu heldur gerður með nútíma tækni grafískrar hönnunar. Það liggja tvær tímalínur eftir reflinum endilöngum; önnur fyrir helstu atburði innan hestamennsku og hrossaræktar á fullveldistímanum og hin yfir áhrifavalda kynbótanna, þ.e. stofnfeður og –mæður núverandi hrossastofns sem eru valdir á grundvelli erfðahlutdeildar. Efst á reflinum eru svo ljósmyndir, táknrænar með einum eða öðrum hætti fyrir framvinduna alla fullveldisöldina. Með lýsandi tölfræði er svo þróunin í hrossafjölda og fjölda útfluttra hrossa á fullveldistímanum sýnd. Einnig erfðaframförin allt frá 1970, þróun í stærð metin sem hæð á herðar, mælt með stöng, frá 1992 og loks þróun í tíðni hins svokallaða skeiðgens frá 1970 til 2010. Lengst til vinstri á reflinum, eða við upphaf hans, er texti þar sem stiklað er á stóru um uppruna og sögu íslenska hestsins og stöðu mála hvað hann varðar er fullveldið gekk í garð. Og lengst til hægri texti um framtíðarsýn hvað málefni okkar þjóðarhests varðar og myndagallerý með myndum eftir færustu ljósmyndara þar sem fjölhæfni hestamennskunnar er dregin fram, jafnt sem sum af fræknustu og fegurstu hrossum sem nú eru uppi, eru sýnd. Refillinn er allur á íslensku en skýringartexti, á ensku, er fjölritaður og liggur frami á sýningarsvæðinu.

Sagnarefillinn er síðan prentaður beint á tjalddúk og myndar þannig svo gott sem heila hlið í tjaldi sem sett verður upp á landsmótssvæðinu í nágrenni við kynbótavöllinn. Refillinn sjálfur er í stærðinni 1,48x14,8 m en hönnun hans, hæð x lengd er í margfeldinu 10 sem gerir fært að hafa hann í hentugri stærð, m.v. rýmið sem til staðar er hverju sinni. Því refillinn er læsilegur og kemur til með að njóta sín allt niður í 0,5 m hæð (þýðir að lengdin er 5 m). Þetta auðveldar m.a. að finna honum hentugan stað til framtíðar í sýningarhúsnæði norður í Skagafirði. Einnig að koma honum víðar fyrir þar sem áhugi kann að vera fyrir hendi, s.s. í Bændahöllinni í Reykjavík. Ég sagði hér á undan að refillinn myndi spanna heila tjaldhlið en tjaldið er jú háreistara en svo að að hlið þess sé einn og hálfur meter á hæð eða svo. En refillinn verður prentaður með bláum feldi þar sem blái flöturinn myndar heppilegan kontrast við litapallettu refilsins sjálfs og lyfir honum því meira en snjákahvítur tjalddúkur myndi gera. Auk vitaskuld skýrskotunar hins bláa litar til heiðríkju landsins sem enginn hefur lýst öllu betur en þjóðskáldið og Skagfirðingurinn Hannes Pétursson:

Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
-hvít eru tröf þeirra.

(Upphafserindi ljóðsins Bláir eru dalir þínir úr Kvæðabók, útg. 1955).

 

Kristinn Hugason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir