Sýning um Austan Vatna hrossin og sveitina þeirra

Anna Þóra stendur fyrir sýningu í Grunnskólanum á Hólum á meðan á Landsmóti hestamanna stendur.
Anna Þóra stendur fyrir sýningu í Grunnskólanum á Hólum á meðan á Landsmóti hestamanna stendur.

Anna Þóra Jónsdóttir frá Vatnsleysu í Viðvíkursveit hefur sett upp skemmtilega sögusýningu um hrossarækt í Viðvíkursveit. Sýningin er til húsa í Grunnskólanum á Hólum og inniheldur söguspjöld og fjölda ljósmynda af fólki og hestum á svæðinu. Feykir leit við á sýningunni í vikunni og spjallaði við Önnu Þóru um þetta framtak.

Anna Þóra segir að á sýningunni sé fjallað um uppruna Svaðastaða- og Kolkuóshrossa, uppúr 1900 og fram til 1990. Upphafið má rekja til Pálma Símonarsonar sem bjó á Svaðastöðum. „Hann byrjaði á því að setja upp girðingu, sem var aðeins á færi efnaðri manna á þeim tíma, og gat því farið í skipulagða ræktunarstarfsemi,“ segir Anna Þóra og afkomandi Pálma, sem staddur er á sýningunni, skýtur því inn í að móðursystir Pálma hafi veitt honum fjárstyrk til að girða.

Á sýningunni er fjallað um þekkta ræktendur, auk Pálma m.a. H.J. Hólmjárn, Sigurmon í Kolkuósi, og Svein Guðmundsson. Þá er getið um fræga hesta, eins og Hóla-Gránu, sem var frægasta brúðakaupsgjöf á Íslandi, en hún var formóðir þessara hrossa. Einnig er getið um merkisfólk úr Viðvíkursveit, svo sem Guðrúnu Bergsdóttur, sem var fyrst kvenna kosin í sveitarstjórn á Íslandi. „Ég er mjög stolt af því að hún hafi búið í Viðvíkursveitinni, segir Anna Þóra, en í myndatexta um Guðrúnu segir m.a.: „Þann 15. júní 1910 gerðist það sem merkilegt má telja, að kona var kosin í hreppsnefnd, og var henni boðið að neita.“ Þá er getið Svaðastaða- og Brimnessystra, sem voru með frægustu hannyrðakonum á Íslandi.

Að sögn Önnu Þóru var talsverð vinna að fara yfir heimildir og velja úr hvað ætti að fjalla um. „Ég fékk þess hugmynd á vetrarkvöldi, af því að það er Landsmót á Hólum, þá skyldi ég bara slá til,“ segir Anna Þóra, sem hlaut styrk úr Menningarsjóði KS til sýningarhaldsins. „Ég sá í hendi mér að það yrði vandi að velja úr öllu því efni sem ég er búin að lesa um hrossin í Viðvíkursveitinni. Ég var að hugsa um að skila bara styrknum en þetta er sveitin mín og mér þykir vænt um sveitina mína. Þetta er mjög mikilvægt og mér fannst ég verða að gera þetta núna, ég var hrædd um að ef þetta yrði ekki gert núna þá yrði þetta aldrei gert.“

Önnu Þóru til aðstoðar voru þær Þuríður Helga Jónasdóttir myndlistarkennari á Hólum og Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir grunnskólakennari í Dalsmynni. Anna Þóra fékk handverksfólk sem tengist sveitinni eða framleiðir hestatengda muni til að hafa varning til sölu og einnig eru konur henni til aðstoðar með kaffiveitingar og súpu á staðnum. Sem fyrr segir er sýningin í Grunnskólanum á Hólum og fer vel á því að þar sé einnig myndlistarsýning Hallrúnar Ásgrímsdóttur frá Tumabrekku, sem kallast Austan Vatna höfðingjar. Sýningin er opin til kl 19 í kvöld og frá kl 11-19 á morgun, laugardag „og kannski á sunnudaginn ef umferðinni verður snúið til baka,," segir Anna Þóra að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir