Þórgunnur sigursæl í Meistaradeild Líflands og æskunnar

Þórgunnur Þórarinsdóttir og Hnjúkur frá Saurbæ á Íslandsmóti yngri flokka í Hafnarfirði síðastliðið sumar. Mynd: Sigríður Gunnarsdóttir.
Þórgunnur Þórarinsdóttir og Hnjúkur frá Saurbæ á Íslandsmóti yngri flokka í Hafnarfirði síðastliðið sumar. Mynd: Sigríður Gunnarsdóttir.

Lokamót Meistaradeildar Líflands og æskunnar fór fram í Víðidalnum í Reykjavík um helgina þar sem keppt var í gæðingaskeiði (PP1) og slaktaumatölti (T2). Þórgunnur Þórarinsdóttir, frá Sauðárkróki, stóð uppi sem sigurvegari í einstaklingskeppninni en einnig var hún í stigahæsta liðinu.

Í móti helgarinnar keppti Þórgunnur í gæðingaskeiði á hestinum Djarfi frá Flatatungu og enduðu þau í öðru sæti á tímanum 5,96 sek sem fleytti henni í efsta sætið í samanlögðu í einstaklingskeppninni.

Þá sigraði lið Þórgunnar, S4S, liðakeppni deildarinnar en það er skipað, auk Þórgunnar sem er í Hestamannafélaginu Skagfirðingi, þrjár stúlkur: Helena Rán Gunnarsdóttir og Glódís Líf Gunnarsdóttir úr Hestamannafélaginu Mána og Svandís Aitken Sævarsdóttir, Sleipni. Allar eru þær stöllur nýliðar í deildinni en þó með töluverða keppnisreynslu, segir í liðakynningu á Eiðfaxi.is.

Meistaradeild Líflands og æskunnar var stofnuð haustið 2016 en fyrsta keppnin var haldin í febrúar 2017. Hugmyndin á bak við deildina var að skapa keppendum í hestaíþróttum á aldrinum 13-18 ára grundvöll til að þróast sem keppnisfólk. Á Facebooksíðu deildarinnar kemur fram að með þessu móti lengist keppnistímabilið sem einnig gerir kröfur til þjálfunar, hestakosts og reiðmennsku, um leið og umgjörðin er glæsileg og hæfir tilefninu.

Nánari upplýsingar um niðurstöðu keppni helgarinnar er að finna á Eiðfaxi.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir