Þórir á Lækjamóti sæmdur Gullmerki LH

Þórir Ísólfsson. Mynd: Sonja Líndal Þórisdóttir.
Þórir Ísólfsson. Mynd: Sonja Líndal Þórisdóttir.

Á Fjórðungsmóti Vesturlands sem fram fór um liðna helgi var Þórir Ísólfsson sæmdur Gullmerki Landssambands Hestamanna (LH) við hátíðlega athöfn.

Guðni Halldórsson formaður LH veitti Þóri Gullmerkið og flutti eftirfarandi tölu um framlag Þóris til hestasamfélagsins á Íslandi.

„Þórir Ísólfsson hefur verið bóndi og tamningamaður á Lækjamóti í Vestur-Húnavatnssýslu í yfir 50 ár og verið virkur félagsmaður í Hestamannafélaginu Þyt í áratugi, teiknaði meðal annars félagsmerki Þyts. Segja má að Þórir hafi haft frumkvæði að hrossarækt á félagslegum grunni í Vestur-Húnavatnssýslu, fyrst með stofnun hrossaræktarfélaga í öllum hreppum sýslunnar, sem síðar varð að Hrossaræktarsamtökum V-Húnavatnssýslu, sat lengi í stjórn samtakana og hefur verið formaður þar í tvígang. Þá var Þórir um árabil í stjórn Hestamannafélagsins Þyts og hefur verið fulltrúi félagsins á landsþingum LH. Þórir var einnig í aðalstjórn félags hrossabænda og fulltrúi bænda í fagráði í hrossarækt í áraraðir og hefur gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Félag tamningamanna. Þórir var á árum áður virkur í keppni og sýningum og var meðal annars handhafi Morgunblaðsskeifunnar 1973. Frá árinu 2007 hefur Þórir nær óslitið kennt tamningar við Háskólann á Hólum ásamt því að stunda búskap og tamningar á Lækjamóti.“

/SMH

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir