Tónlistarmaður er nefndur Björn Líndal Traustason (1962) og býr við Hlíðarveg á Hvammstanga. Hann er Húnvetningur í húð og hár, sonur Trausta og Lilju á Laugarbakka í Miðfirði og er framkvæmdastjóri SSNV. Björn hefur komið við í nokkrum hljómsveitum, þar á meðal Lexíu frá Hvammstanga, en hann spilar á allnokkur hljóðfæri þó gítarinn hafi alltaf heillað mest. Hann segist þó alveg laus við að hafa unnið einhver tónlistarafrek en bætir við... „– Það var samt ákveðið afrek að starfa sem tónlistarkennari um tíma, en ég hélt það ekki lengi út.“