Svana Berglind Karlsdóttir svarar Tón-lystinni að þessu sinni. Svana er af árgangi 72 sem hún líkir við rauðvín í eikartunnu – eldist semsagt nokkuð vel. Aðal hljóðfærið hennar er röddin en hún tók þó einnig 7. stig á píanó hjá Evu Snæbjarnar á sínum tíma. „Hljóðfærin eru því miður vanrækt síðustu árin eftir að ég fór í gullsmíðina og getan eftir því,“ segir Svana en aðspurð um helstu afrek á tónlistarsviðinu segir hún: „Afrek er stórt orð. En ætli ég sé ekki ánægðust með að hafa sungið ásamt Sopranos tríóinu mínu á nokkrum styrktartónleikum og þannig látið gott af mér leiða.“