Sjúkraflutningamenn á Blönduósi segja upp störfum

Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi. Mynd:KSE
Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi. Mynd:KSE

Fimm af sjö sjúkraflutningamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hafa sagt starfi sínu lausu vegna vanefnda ríkisins við að ljúka vinnu við endurskoðun kjarassamninga. Uppsagnarfrestur þeirra er 28 dagar. Frá þessu er greint á visir.is.

Um miðjan desember 2015 undirrituðu samninganefndir Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna annars vegar og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins hins vegar, samkomulag um breytingar á kjarasamningi sjúkraflutningamanni í hlutastarfi. Með samkomulaginu framlengdist gildandi kjarasamningur þessara aðila til 31. mars 2019 . Jafnframt voru þar ákvæði um að sérstök nefnd skyldi vinna úttekt á störfum sjúkraflutningamanna í hlutastarfi þar sem þróun sjúkraflutninga síðustu fimmtán ár hefur verið með þeim hætti að fyrirkomulag ráðninga og kjara geti ekki verið með óbreyttum hætti miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag.

Sett var saman nefnd sem gera átti úttekt á umfangi og eðli sjúkraflutninga á svæðunum sem samningurinn næði til. Vinnu nefndarinnar átti að vera lokið fyrir fyrsta desember á síðasta ári en nefndin hefur ekki enn skilað niðurstöðum.

Á vísir.is segir Þórður Pálsson, sjúkraflutningamaður á Blönduósi, að ástæða aðgerðanna sé fyrst og fremst mikil óánægja með laun og að loforð hafi verið svikin. „Í fyrsta lagi erum við í raun ekki með kjarasamning. Það er bara samkomulag við fjármálaráðherra um hvernig okkar kjör eiga að vera,“ segir Þórður.

Fleiri fréttir