Blöndulína 3 - Nokkrar athugasemdir

Blöndulína 3 frá Blönduvirkjun til Akureyrar hefur verið á döfinni í nær hálfan annan áratug og deilt um hvar hún skuli lögð um Skagafjörð. Nefndar voru einkum tvær leiðir fyrir línulögn, svok. Efribyggðarleið og hins vegar Héraðsvatnaleið.

Á liðnum vetri lagði svo Landsnet fram nýtt útspil sem aðalvalkost, svon. Kiðaskarðsleið, þ.e. að fara með línuna upp úr Svartárdal, gegnum Kiðaskarð, Reykjafjall og neðsta hluta Mælifellsdals, niður fjall ofan bæjar á Mælifelli, milli bæja á Starrastöðum og bæjanna Hafgrímsstaða og Brúnastaða, en þaðan yfir Eggjar að Kjálka. Þessar hugmyndir kynnti Landsnet svo í mörg hundruð blaðsíðna umhverfismati Blöndulínu 3 á liðnu vori, en athygli vakti, hve lítið var minnst á jarðirnar, sem línan á að fara um. Valkostur þessi kom okkur ábúendum fyrrnefndra jarða nokkuð á óvart, því hann hafði ekki verið mikið inni í umræðunni.

Í sambandi við línuleið þessa vill undirritaður, ábúandi kirkjujarðarinnar Mælifells, koma eftirfarandi á framfæri:

  1. Vegurinn um Mælifellsdal er orðinn næsta fjölfarinn síðustu ár. Um hann liggur vegur fram á Eyvindarstaðaheiði í tengslum við Kjalveg, en um hann aka líka þeir, sem hyggjast ganga á Mælifellshnjúk stikaða gönguleið á Kálfafelli sem, eins og kunnugt er, er orðin afar vinsæl. Hið fyrsta, sem mun mæta sjónum þeirra, er þeir koma upp á dalinn, verða risamöstur Blöndulínu 3 ásamt tengivirki, sem fyrirhugað er að reisa þar við ána í landi Hvíteyra á við 2ja hæða einbýlishús.
  1. Ofan Mælifells mun línan skáskera sig niður fjallið í innan við 1km fjarlægð frá bæ og kirkju í beinni sjónlínu í klettabelti Hamraheiðar og Mælifellshnjúksins, en útsýni til hnjúksins er einkar tilkomumikið séð frá Mælifellshlaði. Segja má því með nokkrum sanni, að með fyrirhugaðri línulögn sé verið að girða Mælifellshnjúkinn af frá norðri, sjálft hið tilkomumikla einkennisfjall Skagafjarðar.
  1. Bæirnir Starrastaðir og Lækjargerði verða þó enn frekar fyrir barðinu á línulögninni, sem mun koma aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá hvorum bæ. Þar mun línan einnig liggja yfir sumarhús við Svartá. Á Starrastöðum er rekin umfangsmikil gróðurhúsaræktun auk hefðbundins búskapar, og til stendur að reisa þar annað íbúðarhús. Svipað má segja um bæina tvo austan ár, Hafgrímsstaði og Brúnastaði, þar sem línan mun liggja tiltölulega stutt frá bæjarhúsum. Mesta sjónmengunin verður þó væntanlega, þar sem línan þverar sveitina á leið sinni upp á Eggjarnar, þar sem möstrin munu bera við loft.
  1. Að auki er svo jarðrask og umrót, sem óhjákvæmilega fylgir framkvæmdum, vegalagningar, slóðar og efnistaka, sem munu skilja eftir sig spor í umhverfinu, jafnvel þótt vel verði frá gengið. Ekki skal heldur vanmetin heilsufarsleg áhrif slíkra háspenntra raflína svo nálægt bæjum, sem margt virðist á huldu með og lítið er haft á orði.
  1. En „einhvers staðar verða vondir að vera“, var einu sinni sagt. Enginn vill Blöndulínu 3 nálægt sér. Sé lína þessi talin nauðsynleg, sem undirritaður dregur raunar mjög í efa og gæti stutt ýmsum rökum, þá virðist einsýnt, að hún verði lögð yfir Vatnsskarð samsíða hinni eldri byggðalínu, sem sem fólk er sátt við, niður og inn með Héraðsvötnum öðru hvoru megin og eins langt frá bæjum og kostur er. Þar ætti að mega leggja einhvern kafla línunnar í jörð, sé það ætlun Landsnets að leggja eitthvað í jörð á annað borð. Þannig mun línan valda minnstum spjöllum og sjónmengun og líklega fleiri verða sáttir. Rök Landnets fyrir því að fara nýja línuleið virðast mér ósannfærandi. Þótt Kiðaskarðsleið sé um 8 km styttri, þá hlýtur að mega kosta eitthvað að finna farsælustu leiðina.
  1. Nú þegar þessi orð eru rituð, er beðið álitsgjörðar Skipulagsstofnunar í málinu, sem mun væntanlegt á næstunni. Endanleg ákvörðun verður þó hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, sem verður að setja Blöndulínu 3 inn á aðalskipulag sitt. Ég vil trúa því að nýkjörin sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags hafi hagsmuni allra íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi við ákvarðanir sínar.

Að síðustu þetta: Undirritaður, sóknarprestur á á Mælifelli um 25 ára skeið og enn leigjandi jarðarinnar, hefi í störfum mínum kappkostað að viðhalda jörðinni og bæta hana, eftir því sem kostur er. Ég mun ekki veita samþykki mitt fyrir neinu sem rýrir gildi jarðarinnar eða spillir ímynd hennar sem kirkjustaðar og sögufrægs höfuðbóls - með Mælifellshnjúk innan sinna landamerkja. Ég mun því ekki samþykkja lagningu Blöndulínu 3 um Kiðaskarðsleið. 

Veit ég ekki annað af samtölum mínum við fasteignasvið Þjóðkirkjunnar, eiganda Mælifells, en þar séu menn því sammála. Það hef ég tilkynnt Landsneti. Það munu ekki heldur eigendur hinna jarðanna gera. Línan verður því ekki lögð með okkar samþykki. Kjósi Landsnet að keyra málið fram í krafti valds, verður það að fara aðrar leiðir.

Mælifelli 7. nóv. 2022
Ólafur Hallgrímsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir