Dagur íslenskrar tungu - Jónas Hallgrímsson 1807-1845 :: 215 ára fæðingarafmæli skáldsins að norðan
In aquilonem nocturnum eða Í norðanvindi að næturlagi
Þegi þú vindur!
Þú kunnir aldregi
hófs á hvers manns hag,
langar eru nætur
þars þú hinn leiðsvali
þýtur í þakstráum.
Það er ekki alveg ljóst hvenær Jónas orti þetta kvæði en talið er að það sé meðal æskuljóða hans og að hann hafi verið farinn að læra latínu þegar hann yrkir það en Rómverjar kölluðu einmitt norðanvindinn aquilo. Jónas ólst upp í innsveitum Eyjafjarðar og því hefur hann frá blautu barnsbeini þekkt norðanvindinn, svalan og kraftmikinn, bæði sumar og vetur. Sjálfsagt hafa næturnar verið margar, sérstaklega á vetrum, þar sem vindurinn, kaldur og svalur, hefur haldið vöku fyrir mönnum og bændur óttast um uppskeru, forða, skepnur og jafnvel eigið öryggi. Sjálfsagt hefur skálðnu ekki órað fyrir því að 215 árum frá fæðingu þess sé vindurinn og fylgisveinn hans, hitinn, meðal helstu ógnvalda jarðar. Jónas var ef til vill meiri vísindamaður en skáld í eðli sínu og gæti hann tekið til máls á 215 ára fæðingarafmæli sínu þá væru loftslags- og umhverfismál sjálfsagt það sem honum lægi á hjarta.
Án efa væri spurt, eins og í ljóði hans Ísland frá 1835: „Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg”? Þetta er spurning sem landsmenn ættu að spyrja ár hvert. Íslendingar eru fámenn þjóð í samfélagi heimsins en þeir eru samt hlekkur í stóru keðjunni. Það má segja að vindar blási um víða veröld bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Áhrif loftslagsbreytinga eru mikil og víðtæk og hafa áhrif á náttúru, lífríki og búsetu manna. Fólk flýr ekki eingöngu stríð og mannréttindabrot, fólk flýr líka heimkynni sem hafa orðið illa úti vegna veðurhams af völdum yfirvofandi loftlagsbreytinga. Jónas reynir að þagga niður í norðanvindinum í ljóði sínu en þegar gullsjakalinn sem er þekkt rándýr beggja vegna Miðjarðarhafs er kominn til Norður-Noregs þá má velta fyrir sér hvort norðurslóðir, með norðanvindinum kalda og svala, verði hugsanlega ákjósanlegasta skjól manna og skepna ef fram heldur sem horfir.
Sjálfsagt hefur unga manninn sem orti um leiðsvalan norðanvindinn og vökunætur af hans völdum ekki órað fyrir að liðlega 215 árum síðar yrði hann hugsanlega kærkomið athvarf jarðarbúa á flótta. Eitt er hins vegar öruggt, ljóðskáldið og vísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson hefði látið sig samtímann varða því eins og hann sagði sjálfur: „því tíminn vill ei tengja sig við mig”. Ungur orti hann um norðanvindinn en undir lok ævi sinnar orti hann eftirfarandi sonnettu þar sem hann lýsir því að betra er að kenna til og lifa en að sitja afskiptalaus hjá og afneita hvort heldur er vanda eða lygi samtímans, jafnvel þótt hann sjálfur hlyti bágt fyrir.
Svo rís um aldir árið hvert um sig,
eilífðar lítið blóm í skini hreinu.
Mér er það svo sem ekki neitt í neinu
því tíminn vill ei tengja sig við mig.
Eitt á ég samt, og annast vil ég þig,
hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu
er himin sér og unir lágri jörðu
og þykir ekki þokan voðalig.
Ég man þeir segja: hart á móti hörðu
en heldur vil ég kenna til og lifa,
og þótt að nokkurt andstreymi ég bíði,
en liggja eins og leggur upp í vörðu
sem lestarstrákar taka þar og skrifa
og fylla, svo hann finnur ei – af níði.
Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, framhaldsskólakennari
og ritari DKG Félags kvenna í fræðslustörfum
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.