Ég lofa :: Leiðari Feykis

Ljósm./Myflug.is
Ljósm./Myflug.is

Loforð er eitthvað sem við gefum þegar við viljum að eitthvað gangi eftir sem við getum haft áhrif á og fylgjum eftir. Loforð er skuldbinding sem hver og einn verður að standa við og efna. Annað eru svik. Öðru máli gegnir um vilja sem er eiginleikinn til að framkvæma, ef maður nennir því eða kemur því í verk þó einhver ljón séu í veginum. Ég hef t.d. margoft sýnt vilja minn til ýmissa verkefna en aldrei framkvæmt án þess að hafa lofað því sérstaklega.

Það fer iðulega í mínar fínustu taugar þegar loforð eru gefin án þess að nokkur vissa sé fyrir því hvort hægt verði að standa við stóru orðin. Hver hefur ekki horft á bíómynd þar sem einhver góðhjartaður lofar einhverju sem vonlaust er fyrir viðkomandi að efna: „I promise!“

Pólitíkusar á Íslandi eru löngu búnir að sjá þetta og eru hættir að lofa nokkrum sköpuðum hlut, nema þá kannski í þröngum hópi flokksgæðinga, og eru í staðinn farnir að gefa út og skrifa undir viljayfirlýsingar. Viljayfirlýsing er ekki eins gildishlaðin og gott kosningaloforð. Í viljayfirlýsingunni kemur fram vilji þess sem er í framboði, að eitthvað gerist og viðkomandi sé tilbúinn að fylgja því máli eftir. En ekkert loforð!

Mér flaug þetta í hug þegar fréttir bárust af því að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu stöðu og næstu skref við byggingu nýrrar Þjóðarhallar í Laugardalnum. Athygli vekur að kostnaður og skipting hans milli ríkis og borgar hefur ekki enn verið skilgreindur og fjármögnun liggur ekki fyrir.

Í Feyki vikunnar er að finna viðtal við Guðmund Hauk Jakobsson, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar þar sem farið er yfir mikilvægi flugvallarins á Blönduósi sem sjúkraflugvallar. Alþingismenn og ráðherrar sýna því skilning að klæða þurfi völlinn bundnu slitlagi til að hann teljist viðunandi til að þjóna hlutverki sínu með sóma en dæmi eru um að flugrekstraraðilar hafi veigrað sér við að lenda á honum. Sem malarvöllur er alltaf hætta á grjótkasti sem getur skemmt viðkvæman búnað vélanna.

Enginn pólitíkus hefur lofað neinu svo þetta er allt í lagi en margir hafa sýnt vilja sinn í að hnika málum áfram í rétta átt. Að þeim er þessi pistill sniðinn. Takið höndum saman, tryggið fjármagn til framkvæmda í sumar og ég skal lofa verkið að lokum.

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir