LOKSINS ...mannréttindi!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði

Alþingi fullgilti Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)  í gær 20. september ...og það var sannarlega tími til kominn, þetta tók ekki nema níu ár!

Þrotlaus vinna og barátta fjölda fólks hefur loksins skilað sér, og ég er glöð, full bjartsýni og baráttugleði og er eiginlega komin í vertíðarstemningu, því nú er loksins hægt að byrja, loksins hægt að hefja baráttuna fyrir alvöru. Þessi fullgilding markar nefnilega ekki endapunkt heldur upphaf, því verkefna- og réttindabaráttulisti fatlaðs fólks er langur enda hefur þessi samfélagshópur verið sviðinn og alls ekki notið mannréttinda sem öðrum eru sjálfsögð, má þar nefna NPA verkefnið um innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, og lögræðislögin sem uppfylla ekki sáttmálann, túlkaþjónustuna sem er algjörlega óviðunandi og aðgengismál sem enn eru í ólagi, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir þá sem ekki vita hvað SRFF er þá set ég hér örfáa punkta til útskýringa.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að fatlað fólk eigi sömu mannréttindi og aðrir þá er því oft ekki gert kleift að nýta sér réttindi sín. Samningurinn er því til fyllingar öðrum mannréttindasamningum en felur ekki í sér ný réttindi til fatlaðs fólks, hann útskýrir skyldur aðildarríkjanna til að virða og tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda sinna. Kjarni samningsins snýr að jafnrétti.

    Samningurinn kveður á um almennar meginreglur (3. gr.) sem veita aðildarríkjum og öðrum aðilum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd samningsins.

Meginreglurnar eru:

*   Virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga,

            þ.m.t. frelsið til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga.

*          Bann við mismunun.

*          Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar.

*          Virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta

            af mannlegum margbreytileika og mannkyni.

*          Jöfn tækifæri.

*          Aðgengi.

*          Jafnrétti á milli karla og kvenna.

*          Virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytast og virðing

            fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

Ofangreindur listi er ekki tæmandi, en gefur glögga mynd og þó samningurinn feli að mestu í sér aðlögun mannréttinda að aðstæðum fatlaðs fólks þá er ekki um grundvallarbreytingar að ræða hvernig mannréttindi fatlaðs fólks eru skilgreind. Fullgilding hans er mikilvægur áfangi í baráttu fatlaðs fólks. Samningurinn leggur skyldu á stjórnvöld að ljúka við lagabreytingar, að auki er stór hluti skyldna sem lagðar eru á ríkið skv. samningnum t.d. vitundarvakning, þjálfun og fræðsla, sem ekki krefst lagabreytinga en þarf að koma til framkvæmdar.

Í dag er upphaf á nýjum tíma, betra Ísland fyrir alla er á teikniborðinu, og við, fatlað fólk höfum nú réttarstöðu sem gefur okkur tækifæri til að vera sýnileg, vera virk í samfélaginu, eiga stærra og betra líf, vera eins og annað fólk!

Það er í okkar höndum að standa vörð um réttindi okkar, að berjast fyrir betra samfélagi, að knýja á um aðgerðir til mannsæmandi lífs fyrir fatlað fólk, hjá stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði

Samþykkt Alþingis er hægt að sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir