Takk fyrir mig! :: Leiðari Feykis
„Ég geri sko ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn,“ segir hinn lúðalegi Axel við vinkonu sína í hinni frægu kvikmynd Óskars Jónassonar Sódóma Reykjavík. Þetta hugarfar þekkja margir úr sínu nærumhverfi og hefur verið þekkt svo lengi sem elstu menn muna og verður líklega til meðan þeir yngstu tóra.
Mér varð hugsað til þessa um daginn þegar spruttu upp umræður um meinta mismunun hjá leikmönnum landsliða karla og kvenna í knattspyrnunni á samfélagsmiðlum sem svo rötuðu í fréttirnar. Forsagan er sú að leikmaður kvennaliðsins segist enn bíða eftir treyjunni sinni fyrir að hafa tekið þátt í 100 leikjum fyrir KSÍ líkt og tveir höfðu fengið í karlaliðinu skömmu áður. Mátti skilja á viðkomandi leikmanni að henni hafi ekki verið veittur neinn virðingarvottur eða viðurkenning fyrir framlag sitt. Síðar kom í ljós að viðkomandi hafði fengið blómvönd afhentan fyrir 100. leikinn frá KSÍ. Það má líka taka það fram að karlmaðurinn fékk ekki blómvönd. Þarna var sannarlega um misræmi að ræða á milli virðingavotta en ekki um illan hug stjórnarmanna eða starfsmanna sambandsins.
Eins og við mátti búast flugu stóru hnífarnir um loftin blá og beindust að stjórninni sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Upphrópanir og svívirðingar samfélagsvíkinga létu ekki á sér standa og jafnvel heiðvirt fólk lét ljót orð sér um fingur fara á takaborðinu. Svo rammt kvað í kommentakerfum landsmanna að Þorgrímur Þráinsson, sem lengi lék knattspyrnu, sá sér ekki annað fært en að þakka fyrir öll sín ár með Knattspyrnusambandinu en fékk jafnvel bágt fyrir hjá reiðum takkaborðshömrurum.
Þetta er orðinn ansi hvimleiður ávani hjá okkur Íslendingum, að henda einhverju vanhugsuðu eða altént lítt ígrunduðum athugasemdum út á Netið án þess að gera sér grein fyrir hvar oddhvassir hnífarnir lenda. Út um land allt starfar fjöldi fólks í hvers kyns sjálfboðavinnu í ótal félagasamtökum, eða í eigin verkefnum, og knýr áfram félagsstarfið öðrum til heilla eða skemmtunar. Oftast eru launin fólgin í hamingjunni sem felst í því að tilheyra skemmtilegum félagsskap, fá jafnvel hrós, og gera samfélaginu gott. En oft fær þetta sama fólk óvægna gagnrýni fyrir eitthvað sem hægt væri að leysa áður en til upphrópana og hnífakasta kemur og margoft hefur það sýnt sig að þar er á ferð fólk sem gerir ekki neitt fyrir neinn, er bara þiggjendur.
Ef allir hugsuðu líkt og Axel erkilúði, myndi líklegast lítið gerast í íþrótta og listaheiminum hjá okkur almúganum. Þökkum þeim fyrir sem eru tilbúin og nenna að starfa fyrir okkur og gagnrýnum ekki hugsunarlaust. Þetta á jafnvel við í pólitíkinni líka. Þar eru líka manneskjur að verki.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.