112-dagurinn í Húnavatnssýslum

Á sunnudaginn kemur, þann 11. febrúar. verður 112 dagurinn haldinn líkt og gert hefur verið undanfarin ár en þann dag efna samstarfsaðilar 112-dagsins til kynningar á starfsemi sinni og búnaði víða um landið.

Í Húnavatnssýslunum báðum verður dagskrá í tilefni dagsins. Viðbragðsaðilar í Húnaþingi vestra ætla að bjóða öllum sem áhuga hafa í hópakstur um Hvammstanga og verður lagt af stað frá Húnabúð kl. 14:00. Allir fá að fara með meðan pláss leyfir. Að þí loknu verður formleg afhending á nýrri slökkvibifreið Brunavarna Húnaþings vestra og þá verður opið hús til klukkan 16:00 í slökkvistöðinni þar sem boðið verður upp á tertur og kaffi. Hægt verður að skoða búnað og tæki allra viðbragðsaðila og kynnast starfseminni hjá Björgunarsveitinni Húnum, Hvammstangadeild RKÍ, Sjúkraflutningum Húnaþings vestra, Brunavörnum Húnaþings vestra og lögreglunni.

Á Blönduósi munu viðbragðsaðilar aka um bæinn upp úr klukkan 14:00 og verður staðnæmst við húsnæði slökkviliðsins þar sem hægt verður að skoða bílaflotann sem og önnur tæki. Þar verður kaffi, Svali og bakkelsi í boði fyrir gesti og gangandi.

Viðbragðsaðilar hvetja alla til að koma og skoða búnað þeirra og þiggja fræðslu um starfsemi þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir