Allt upp á tíu og rúmlega það :: Upplifun í leikhúsi – Á svið
Undirritaðar brugðu undir sig betri fætinum í gær, renndu í næstu sýslu á frumsýningu Sæluvikuleikrits Leikfélags Sauðárkróks Á svið og urðu ekki fyrir vonbrigðum, allt upp á tíu og rúmlega það.
Verkið gerist á æfingum og frumsýningu áhugaleikfélags og telur ellefu leikara. Upplifunin er eins og að vera mættur á æfingu. Þarna er stressaði og óþolinmóði leikstjórinn Guðröður sem er leikinn snilldarvel af Árna Jónssyni. Við hittum líka prímadonnuna, sem öll leikfélög eiga, og er leikin af Ingu Dóru, sem skilar því mjög vel.
Þarna er líka leikarinn sem má bara alls ekkert vera að því að vera þarna, leikin af hinni ungu Herdísi Maríu og verður gaman að sjá meira til hennar í framtíðinni.
Ingi Sigþór og Eysteinn Ívar eru með einhvern samhljóm sem skilar sér svo skemmtilega til áhorfenda og eru orðnir svo þaulreyndir, þrátt fyrir ungan aldur.
Systurnar Fanney Rós og Kristey Rut eru skemmtileg viðbót við hópinn og eiga vonandi eftir að gleðja okkur meira í framtíðinni með sínum leik.
Og ekki má gleyma unga gítarleikaranum Finni sem leikinn er af Finni L. Sorinsyni og er bara alls ekki í þessu leikriti en spilar undurvel á gítarinn sinn og skilar hlutverki sínu með sóma.
Svo er það Láki tækni-, hljóð- og alltmugligtmaður, sem er kannski ekki alveg með allt á hreinu og vottar kannski á örlitlu ADHD. Kristján Örn kemur honum vel frá sér eins og hann gerir í öllum sínum hlutverkum. Guðbrandur Jón er skemmtilegur í sínum hlutverkum, er svona hálfgerður lúði og hlýðinn eiginmaður, bara óborganlegur eins og alltaf.
Að öllum öðrum ólöstuðum er alger unun að horfa á Elvu Björk í sínu hlutverki, nýbakaða og óþolandi erfiða leikskáldsins Sigdísar, sem gerir stanslausar breytingar alveg fram að lokametrunum og reynir verulega á þolrifin á öllum.
Elva hreinlega talar við áhorfendur með öllum líkamanum og salurinn grét úr hlátri yfir hoppunum, skoppunum, kippunum og grettunum sem henni tekst að framkvæma og allt á sömu sekúndunni. Það sem gerir þetta „stykki“ sérstakt er að það eru flestir að leika tvær persónur og því er erfitt að lýsa persónum og leikendum. Textinn skilar sér vel út í sal. Hraðinn góður og aldrei dauð stund. Leikmyndin er einföld, engar leiðinlegar skiptingar og gaman að sjá myndir af eldri meisturum Leikfélags Sauðárkróks prýða veggina í æfingarhúsnæðinu.
Framtíðin er björt með alla þessa ungu og efnilegu leikara sem eru svo lánsamir að fá að vinna með og læra af „gömlu hundunum“. Sem fyrr tekst Ingrid Jónsdóttur og leikurum, sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref á leiksviði, vel upp við að halda stemmingu í húsinu.
Takk fyrir okkur LS. Þið gerðuð þetta einu sinni enn!
Hanna Bryndís Þórisdóttir
Vibekka Arnardóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.