Alvarlegur byggðavandi í vændum

Íslenskir sauðfjárbændur horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust, í kjölfar nærri 10% lækkunar á síðasta ári. Þessar lækkanir munu koma harkalega niður á sveitum landsins og bitna sérstaklega á yngri bændum. Bændur hafa þegar lagt út í nánast allan kostnað við lambakjötsframleiðslu haustsins og lækkun á afurðaverði er því hrein og klár launalækkun.  Þessi launalækkun er 1.800 milljónir króna fyrir stéttina í heild ef hún gengur eftir sem horfir og bætist þá við 600 milljónir sem bændur tóku á sig í fyrra.

Hringinn í kringum landið er sauðfjárrækt hryggjastykkið í atvinnulífi dreifbýlis. Að auki byggir fjöldi íbúa í þéttbýli afkomu sína á úrvinnslu sauðfjárafurða og þjónustu við bændur. Því er mikilvægt að bændur og stjórnvöld taki höndum saman um lausn vandans hið fyrsta. Þar þarf bæði að horfa til skammtímaaðgerða sem taka á þeim bráðavanda sem nú blasir við en einnig til langs tíma svo koma megi í veg fyrir að svipuð staða komi upp aftur.

Heimild:  Samfélagsleg þýðing sauðfjárbúskaps.  2015.  Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.  

 

Þriðjungur af kindakjötsframleiðslunni er fluttur úr landi og seldur á erlendum mörkuðum. Sú sala hefur ekki gengið sem skyldi að undanförnu vegna ytri aðstæðna sem íslenskir sauðfjárbændur hafa engu ráðið um. Útlit er fyrir að birgðir við upphaf sláturtíðar verði allt að 1.000 tonnum meiri en æskilegt væri. Áhrif af viðskiptadeilu Vesturveldanna og Rússa, lokun Noregsmarkaðar sem áður tók við um 600 tonnum og hátt gengi íslensku krónunnar eru helstu ástæðurnar. Þá hefur fríverslunarsamninur Íslands og Kína ekki enn verið virkjaður fyrir lambakjöt þótt rúm þrjú ár séu liðin frá undirritun.

Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld um viðbrögð við aðsteðjandi bráðavanda hafa því miður litlu skilað. Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að nýgerðum búvörusamningi megi kenna um það hvernig komið er. Enn er áhrifa hans ekki farið að gæta í framleiðslu á kindakjöti. Vinna við endurskoðun er hafin og á að ljúka 2019. Að henni koma bændur með opnum hug. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll hefur öll færi á að koma sínum áherslum þar að, en hann hefur enn ekki lýst neinu efnislega um þær breytingar sem hann vill sjá.

Landssamtök sauðfjárbænda hafa mótað vandaða framtíðarsýn til ársins 2027 sem er mikilvægt innlegg í þá vinnu. Mikilvægt er að stjórnvöld og stjórnmálamenn nýti einnig þá vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun búvörusamninga til að leggja fram sína framtíðarsýn.

Eftir sem áður verður að taka á bráðavanda greinarinnar án tafar. Annars er hætt við verulegri byggðaröskun á næstu misserum. Bændur hafa þegar lagt fram fjölda tillagna sem þeir vonast til að stjórnvöld taki afstöðu til. Mikilvægt er að stjórnvöld taki höndum saman með bændum við þetta verkefni.

/ Fréttatilkynning frá Landssamtökum sauðfjárbænda vegna umfjöllunar um afkomu sauðfjárbænda í fréttum RÚV í gærkvöldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir