Arctic Coastline Route - Strandvegur um Norðurland

Rauðu línurnar sýna leiðina sem unnið er með í upphafi. Hvítu línurnar tákna þann hluta strandlengjunnar sem reiknað er með að vinna með í framtíðinni. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.
Rauðu línurnar sýna leiðina sem unnið er með í upphafi. Hvítu línurnar tákna þann hluta strandlengjunnar sem reiknað er með að vinna með í framtíðinni. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.

Verkefnið Arctic Coastline Route eða strandvegur um Norðurland hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan sem samstarfsverkefni sveitarfélaganna Skagafjarðar, Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar um ferðamannaveg um Tröllaskaga. 
Sótt var um styrk til verkefnisins til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra en önnur svipuð umsókn með örlítið annarri landfræðilegri afmörkun barst sjóðnum og voru verkefnin tvö sameinuð og fengu sameiginlegan styrk. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur fjármagnað verkefnið sjálft eftir að Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra hafnaði umsókn um styrk til þess.  Auk þeirra þriggja sveitarfélaga sem fyrr eru talin standa Akureyrarbær og Norðurhjari, sem eru samtök ferðaþjónustuaðila á svæðinu frá Kelduhverfi austur í Bakkafjörð, að verkefninu.
Síðan í september hefur Markaðsstofa Norðurlands haft umsjón með verkefninu og var Christiane Stadler, landfræðingur, ráðin sem verkefnastjóri. Hefur hún unnið að greiningu og undirbúningi verkefnisins og er nú byrjuð að kynna það fyrir hugsanlegum samstarfsaðilum á svæðinu. Starfssvæði Markaðsstofu Norðurlands er frá Borðeyri til Bakkafjarðar og hefur verkefnið verið unnið þannig að hægt sé að framlengja veginn í vesturátt sé áhugi fyrir hendi.

Markmið verkefnisins er að styrkja stöðu Norðurlands í markaðssetningu innanlands og erlendis.  Því er ætlað að hvetja ferðamenn til að staldra lengur við á Norðurlandi, draga fram helstu áherslur og vinna markvisst að uppbyggingu staðanna sem að veginum liggja og að gera Norðurland að freistandi valkosti fyrir ferðamenn árið um kring. Áhersla er lögð á sjávarþorpin og þá afþreyingu, sögu og upplifun sem tengist strandmenningu.  Vonast er til að verkefnið verði þjónustu- og afþreyingaraðilum á svæðinu hvatning til að bæta og auka starfsemi sína.
Endanlegt nafn á eða vörumerki fyrir verkefnið hefur ekki verið ákveðið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir