Búið að semja við huldufólkið í Hegranesi

Allt gekk á afturfótunum þegar framkvæmdir hófust við borun eftir heitu vatni á bænum Ríp í Hegranesi. Nú ku hins vegar búið að semja við huldufólk og allt á betri veg. Mynd: Mbl./ Sigurður Bogi.
Allt gekk á afturfótunum þegar framkvæmdir hófust við borun eftir heitu vatni á bænum Ríp í Hegranesi. Nú ku hins vegar búið að semja við huldufólk og allt á betri veg. Mynd: Mbl./ Sigurður Bogi.

Eins og greint var frá í fjölmiðlum um síðustu helgi hafa boranir eftir köldu vatni gengið illa á bænum Ríp í Hegranesi í Skagafirði. Veltu menn fyrir svo hvort vandræðin mætti rekja til þess að ekki hafi verið fengið leyfi fyrir framkvæmdum hjá huldufólkinu, sem margir trúa að búi í Hegranesi. Nú eru boranir hins vegar komnar á fullt skrið og búið að finna kalt vatn, eins og til stóð.

Tæki hjá fyrirtækinu VCK ehf., sem fengið var til að bora eftir köldu vatni á bænum, höfðu ítrekað bilað, síðustu tvær vikur. Nú er hins vegar allt farið að ganga betur. Búið er að bora niður á 90 metra og finna vatn sem ætti að duga til, en til stendur að bora niður á 100 metra til öryggis.

Feykir hafði samband við Birgi Þórðarson bónda á Ríp, sem staðfesti að allt væri farið að ganga betur varðandi borunina. Aðspurður um hvað hafi verið að gert segir hann að einfaldlega hafi verið samið við álfana, og framkvæmdasvæðið fært fjær klöppinni þar sem til stóð og bora og þar með utan þess svæðið sem talið er að gamall kirkjugarður á svæðinu gæti hafa verið, en það hafi ekki verið kortlagt nákvæmlega hvar hann var. „Ef rétt er haldið á spöðunum gengur þetta allt betur,“ sagði Birgir í samtali við Feyki á þriðjudaginn. Að hans sögn er talið að í Hegranesi sé ein mesta huldubyggð landsins og þar, sem og víðar á landinu trúi menn almennt á álfa og huldufólk. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir