Fergusonfélagið veitir Búminjasafninu í Lindabæ styrk

Á aðalfundi Fergusonfélagsins sem haldinn var 6. febrúar sl. var samþykkt að veita Búminjasafninu í Lindabæ í Sæmundarhlíð í Skagafirði 300.000 kr. styrk í viðurkenningarskini fyrir frábært starf þeirra hjóna Helgu Stefánsdóttur og Sigmars Jóhannssonar við uppbyggingu safnsins og varðveislu gamalla véla og muna er tengjast landbúnaði.
Fergusonfélagið er áhugamannafélag um gamlar landbúnaðarvélar og telur 255 félaga víðsvegar af landinu. Félagið er 10 ára gamalt, var stofnað á jólaföstu 2007. Á þessu tímabili, m.a. af hagnaði af sölu á bolum, húfum og könnum með merki félagsins, hefur það veitt nokkra styrki til safna sem varðveita gamlar landbúnaðarvélar. Á síðasta ári var Samgönguminjasafninu á Ystafelli í Köldukinn veittar 350.000 króna styrkur. Áður hafði Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri fengið styrk frá félaginu og því einnig færðar vélar sem félagið tók þátt í kostnaði við uppgerð. Má í því sambandi nefna afturhluta af gömlum Ferguson sem gluggi hafði verið settur á til að sýna hvernig vökvakerfið vinnur sem Harry Ferguson fann upp, en sú uppfinning olli byltingu í jarðvinnslu fyrir 80 árum síðan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.